Menning

Klórar sér í kollinum yfir nýrri göngu­brú: Margt „mjög sér­stakt“ sem menn hafi búið til síðustu ár

Magnús Jochum Pálsson skrifar
Andri Snær hefur hrint af stað fjörlegum umræðum um nýja göngubrú yfir Sæbraut.
Andri Snær hefur hrint af stað fjörlegum umræðum um nýja göngubrú yfir Sæbraut.

Ný göngubrú er risin yfir Sæbraut og hafa margir skoðun á útliti hennar. Einn þeirra sem klórar sér í kollinum yfir brúnni er rithöfundurinn Andri Snær Magnason sem telur hönnunina merki um of afgerandi áhrif íslenskrar verkfræði í borgarlandslaginu. Fjölmargir leggja orð í belg.

Andri Snær skrifaði um útlit brúarinnar í Facebook-færslu í dag sem hefur vakið töluverð viðbrögð. Tugir manna hafa brugðist við færslunni, margir skrifað ummæli við hana og nokkrir deilt henni.

„Prófaði nýju göngubrúna yfir Sæbraut - auðvitað ber að fagna henni. Hún er víst til bráðabirgða (bráðabirgða geta verið í 30 ár hérlendis). Ég hef klórað mér í höfðinu yfir hönnuninni - af því hún er frekar „sérstök í útliti“. Ég hélt að hún væri einhverskonar pakkadíll frá Kína frekar en frumhönnun,“ skrifar Andri í færslunni.

„Ég var alltaf að bíða eftir að græna vinnupallaklæðningin yrði tekin af henni en þessi græni litur er víst notaður af ásettu ráði. (Er þetta skurðlæknagrænn?). Lyftuturninn er klæddur með þverliggjandi bárujárni með bláum röndum að því er virðist til „skrauts“. Ég var líka að bíða eftir að járnið yrði tekið af svo að „raunverulega“ áferðin sæist, glerlyftan undir járninu en hún virðist líka eiga að vera svona,“ skrifar hann.

„Saman verður til mjög afgerandi sýn frá Barðavogi sem minnir örlítið á járnblendiverksmiðju.“

Tilfinning um „þrjú óskyld mannvirki í einum hnapp“

Andri heldur síðan áfram í færslunni að lýsa útliti brúarinnar og ósamræminu milli ólíkra hluta hennar.

„Bárujárnið gæti verið tilvísun í byggingararf 21. aldar en þverliggjandi bárujárn hentar vel þegar velja skal milli fegurðar húss eða hvort verktakinn eigi að innleysa aðeins stærri pallbíl úr verkefninu,“ skrifar hann.

Brúin séð frá annarri hliðinni.

„Liturinn í þakinu er eins og reffinn hafi verið regnbogaþakið í Árósum eftir Ólaf Elíasson en einhver á næsta skrifborði fékk að hanna útveggina í öðrum grænum tón heldur en græni liturinn í regnbogaþakinu og það skapar vissulega ákveðna spennu sem bætist við að þriðja skrifborðið fékk að gera lyftuturninn án þess að neinn sæi hvað hinn gerði.

Blái liturinn á lyftuturninum se síðan annar blár tónn en blái liturinn á þakinu. 

„Ósamræmið í litum býr til tilfinningu um að hér séu þrjú óskyld mannvirki í einum hnapp af því turninn talar ekki við stigann heldur, önnur áferð á málminum þar,“ skrifar Andri.

Herða mætti áfanga um listasögu og hönnun

Rýmið sé „nokkuð bjart og snyrtilegt, stiginn og lyftan sömuleiðis, allt úr góðu og traustu efni og ágætis handbragð“ að sögn Andra. Hins vegar séu ekki margar lyftur í almannarými á Íslandi og því vonar hann að hún reynist vel.

Svona er umhorfs inni í göngubrúnni.

„Barnið í mér er alltaf smá hrætt við að hitta pönkara í lokuðu rými og því er upplifunin talsvert önnur en á brúnum yfir Miklubraut,“ skrifar hann.

„Verkís er skráð fyrir hönnun verksins - og Vegagerðin líka - almennt séð má segja að verkið ýti nokkuð undir áhyggjur mínar af íslenskri verkfræði og afgerandi áhrifum hennar í öllu okkar borgarlandslagi, því miður er svo margt sem menn hafa búið til síðustu ár - „mjög sérstakt“ í útliti og oft erfitt að skilja ný umferðarmannvirki og lógíkina á bak við þau.“

Andri leggur til að herða ætti áfanga í háskólunum hvað varðar hönnun og listasögu áður en fólki sé „sleppt út í náttúruna til að raða saman mörgum tonnum af gleri og járni“.

Sjá einnig: Göngu- og hjóla­brú við Duggu­vog opnuð

„Það væri fróðlegt að vita hvers vegna þetta útlit varð niðurstaða aðila sem ættu að hafa aðgang að góðri ráðgjöf hvað varðar hönnun, litaval og annað,“ bætir hann við.

„Það snertir síðan almennt menningu á Íslandi, í Færeyjum getur hvaða 10 manna hópur brostið í hringdans af því það er menning þeirra, við vitum hvernig á að halda aðfangadagskvöld af því það er menning okkar og Japani getur pakkað inn gjöf af fullkomnun og næmni sem maður skilur varla, það er menning þeirra. En að byggja og skipuleggja hérlendis...“ skrifar hann að lokum.

Fréttamaður Sýnar var einn af þeim fyrstu til að ganga yfir brúna í kvöldfréttum í gær.

Vinnuvélageymsla, fjarskyld smáfrænka eða leikskólaverkefni

Ýmsir hafa lagt orð í belg á þræði Andra Snæs ýmist til að hrósa honum fyrir skemmtilegar lýsingar á útlitinu, taka undir gagnrýni hans eða lýsa yfir skoðunum sínum á brúnni.

„Svona svipað hlutfall metnaðar gagnvart fegurð og praktík eins og timburlagershúsið hjá Byko eða vinnuvélageymsla á einhverju býli sem sést ekki frá þjóðveginum,“ skrifar tónlistarmaðurinn Biggi Veira við færsluna.

Ljóðskáldið Guðrún Hannesdóttir er jákvæðari og vonar að úti sé einhvers staðar hópur sem fíli brúnna í döðlur.

„Mér sýnist þetta vera eins og fjarskyld smáfrænka Landspítalabyggingarinnar nýju, og eitthvað í ætt við gangstéttirnar í Borgartúninu, allt heldur órólegt og tvístrað. Hægt að afbera um hásumar kannski, en verður líklega illþolanlegt í kulda og slabbi. Vonandi er stór hópur sem fílar þetta í ræmur!“ segir hún.

Listamennirnir Guðrún Hannesdóttir, Sverrir Norland og Biggi Veira brugðust við færslu Andra.

Listakonan Sigga Heimis er öllu neikvæðari og lýsir hönnun brúarinnar sem skelfingu.

„Af hverju getum við aldrei gert einfaldar, stílhreinar og formfagrar lausnir? Það er eins og þetta sé leikskólaverkefni í boði Sorpu; notum alla afgangana og sem mest af þeim...“ skrifar Sigga.

Rithöfundurinn Sverrir Norland deilir færslu Andra og slær á létta strengi.

„Þessi brú minnir mig í fljótu bragði á geimskip - eða einhvers konar göng inn í aðra vídd, annan veruleika - en ég á reyndar eftir að sjá hana í raunheimum. Ef við Íslendingar höldum vel á spöðunum og sömuleiðis fast í setta stefnu í ríkjandi byggingarlist í Reykjavík eigum við góðan möguleika á því að státa brátt af framúrstefnulegustu höfuðborg á þriðju reikistjörnu frá sólu. Og þá verður nú gaman að vera til,“ skrifar hann í færslunni.

Fréttastofa hefur sent fyrirspurn á arkitektastofuna Gláma-Kím til að forvitnast um hvaða arkitekt hefði komið að hönnun hennar og hvort hann vildi bregðast við gagnrýninni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.