Fótbolti

Ung fótboltakona af­vopnaði nettröllin á glæsi­legan hátt

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Skye Stout skoraði frábært mark í sínum fyrsta leik með skoska félaginu Kilmarnock FC.
Skye Stout skoraði frábært mark í sínum fyrsta leik með skoska félaginu Kilmarnock FC. Kilmarnock FC

Hin sextán ára gamla Skye Stout var fórnarlamb illkvittna nettrölla fyrir helgi þegar hún kynnt sem nýr leikmaður skoska félagsins Kilmarnock FC.

Þessi táningsstúlka var þarna að taka stærsta skrefið á ferlinum en í stað þess að þetta væri einn besti dagurinn í hennar lífi breyttist hann fljótt í einn þann versta.

Netverjar herjuðu á færslu félagsins þar sem sjá mátti mynd af stúlkunni. Nettröllin gerðu það mikið grín að útliti hennar að Kilmarnock varð á endanum að taka færslu sína úr birtingu.

Í framhaldinu fór frétt um þetta ömurlega háttalag nettröllanna á flug á netinu en um leið fékk Stout gríðarlega mikinn stuðning alls staðar að. Fótboltaheimurinn sendi henni baráttukveðjur og ást úr öllum áttum.

Um helgina var síðan komið að fyrsta leiknum hennar fyrir Kilmarnock og um leið tækifæri fyrir Skye Stout að sýna hvað hún getur í fótbolta.

Hún gerði það og gott betur. Stout skoraði eitt mark liðsins með stórglæsilegu skoti beint úr aukaspyrnu. Stelpan átti einnig stóran þátt í öðru marki í 6-2 sigri á St Johnstone.

Hún lét verkin tala inn á vellinum og það heyrist líklega ekki mikið í nettröllunum núna. Hér fyrir neðan má sjá þetta stórglæsilega mark en myndbandið sést með því að fletta.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×