Lífið

Á bata­vegi fjórum mánuðum eftir slysið

Svava Marín Óskarsdóttir skrifar
María Sigrún Hilmarsdóttir er fréttakona hjá Ríkisútvarpinu.
María Sigrún Hilmarsdóttir er fréttakona hjá Ríkisútvarpinu.

María Sigrún Hilmarsdóttir, fréttakona á Ríkissjónvarpinu, gekkst undir margþætta aðgerð á vinstra hné í gær eftir að hafa slasast á fjallaskíðum á Snæfellsjökli um liðna páska. Hún segist nú vera á batavegi og stefnir á að mæta aftur til starfa í október.

Frá þessu greinir María Sigrún í færslu á samfélagsmiðlum.

„Nú er ég að jafna mig eftir margþætta aðgerð á vinstra hné sem gerð var í gær og gekk blessunarlega mjög vel. Þar var meðal annars búið til nýtt fremra krossband úr sin sem tekið var af framan af sköflungi. Nú taka við nokkrar vikur á hækjum og verkjalyfjum og svo markviss endurhæfing með sjúkraþjálfara,“ skrifar María Sigrún.

Hlakkar til að sinna börnunum 

Fjórir mánuði eru liðnir frá slysinu þar sem hún margbraut á sér ökklann, sleit liðband og krossband í hné. María fór í aðgerð á ökklanum á páskadag og gekkst undir aðgerð á hnénu í gær.

Í byrjun maímánaðar ræddi María slysið við fréttastofu Sýnar. Hún sagðist ekki hafa áttað sig strax á hve illa væri fyrir henni komið og varð mjög brugðið þegar hún var tekin úr skíðabuxunum á slysadeildinni.

„Þá sé ég á mér vinstri fótinn og þetta er eins og fílsfótur. Þá var mér rúllað beint í myndatöku og það varð ljóst að það þyrfti að gera aðgerð,“ sagði María í viðtalinu.

María sagði það erfiðasta við slysið vera að hún gæti ekki sinnt börnunum sínum að fullu, en yngsta dóttir hennar er fötluð og þarf mikla aðstoð.

„Ég hlakka svo til að geta beygt bæði hnén aftur, sitja á hækjum mér og snýta litlum nebbum í augnhæð. Það er ekki gefið og gæti tekið eitt ár, en þangað stefni ég,“ skrifaði María við færsluna að lokum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.