Enski boltinn

Leoni færist nær Liverpool

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Giovanni Leoni í baráttu við Romelu Lukaku í leik Parma og Napoli í ítölsku úrvalsdeildinni á síðasta tímabili.
Giovanni Leoni í baráttu við Romelu Lukaku í leik Parma og Napoli í ítölsku úrvalsdeildinni á síðasta tímabili. epa/ELISABETTA BARACCHI

Flest bendir til þess að Englandsmeistarar Liverpool séu að ganga frá kaupunum á ítalska ungstirninu Giovanni Leoni frá Parma.

Leoni er uppalinn hjá Padova en var lánaður til Sampdoria á þarsíðasta tímabili og lék þá með liðinu í ítölsku B-deildinni. Hann gekk svo í raðir Parma fyrir ári og lék sautján leiki með liðinu í ítölsku úrvalsdeildinni á síðasta tímabili. Leoni, sem er átján ára hávaxinn miðvörður, hefur leikið átta leiki fyrir yngri landslið Ítalíu.

Liverpool hefur einnig verið sterklega orðað við annan miðvörð, Marc Guehi, fyrirliða Crystal Palace. Samningur hans við bikarmeistarana rennur út á næsta ári og svo gæti farið að Palace selji hann til að forðast að missa hann frítt næsta sumar.

Liverpool hefur látið verulega að sér kveða á félagaskiptamarkaðnum í sumar og keypt Florian Wirtz, Jeremie Frimpong, Milos Kerkez, Hugo Ekitike og Giorgi Mamardashvili. Þá hafa meistararnir mikinn áhuga á að fá Alexander Isak, framherja Newcastle United.

Liverpool mætir Bournemouth á Anfield í upphafsleik ensku úrvalsdeildarinnar annað kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×