Erlent

Ó­sköp venju­leg kona ráðin sem leigu­morðingi eftir kynni á stefnumótaforriti

Jón Þór Stefánsson skrifar
Aimee Betro meðan hún verslaði á Bretlandi.
Aimee Betro meðan hún verslaði á Bretlandi. Lögreglan í Bretlandi

Bandarísk kona hefur verið sakfelld í Bretlandi fyrir að taka þátt í ráðabruggi sem snerist um að verða manni að bana. Rannsókn leiddi í ljós að konan, sem var í hlutverki leigumorðingja, þætti ósköp eðlileg og virtist ekki vera með nein tengsl við undirheima.

Konan, sem heitir Aimee Betro og er frá Wisconsin-ríki, mun hafa verið klædd andlitsslæðu þegar hún reyndi að verða Sikander Ali, breskum karlmanni, að bana í Birmingham í september árið 2019. Hún er sögð hafa miðað skammbyssu að Ali, en þegar hún hafi hleypt af hafi byssan staðið á sér. Ali hafi hlaupið í burtu og komst því lífs af.

Betro var framseld frá Armeníu, þar sem hún hafði dvalið síðan, fyrr á þessu ári til að svara til saka í Bretlandi. Það mun hafa reynst lögreglu og saksóknurum erfitt að fá hana aftur til Bretlands

Málið má rekja til deilna tveggja fjölskyldna. Samkvæmt BBC höfðu feðgarnir Mohammed Aslam og Mohammed Nabil Nazir meiðst í slagsmálum í verslun sem faðir áðurnefnds Ali átti. Í kjölfarið hafi hatrammar deilur hafist milli fjölskyldanna tveggja sem hafi orðið til þess að feðgarnir ákváðu að fá einhvern til að ráða Ali af dögum.

Þeir hafi einhverra hluta vegna leitað til Betro. Haft er eftir lögreglumanninum Alastair Orencas að tengsl hennar við undirheima virðist lítil sem engin.

„Á yfirborðinu virðist hún vera venjulegur einstaklingur. En hún er síðan tilbúin að fremja svívirðilegt og bíræfið morð.“

Þess má geta að feðgarnir, Aslam og Nazir, hlutu báðir fjörutíu ára fangelsisdóm í fyrra fyrir sinn þátt í morðtilræðinu.

Betro er sögð hafa kynnst Nazir, syninum, á stefnumótaforriti. Þau hafi hist í London og sofið saman þegar hún heimsótti Bretlands um áramótin 2018 til 2019. Þó virðist ekki liggja fyrir hvernig hún varð fyrir valinu sem leigumorðingi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×