Erlent

Gefur ekkert land­svæði eftir

Sólrún Dögg Jósefsdóttir skrifar
Selenskí segir allar lausnir án Úkraínu „lausnir gegn friði“.
Selenskí segir allar lausnir án Úkraínu „lausnir gegn friði“. EPA

Volodimír Selenskí Úkraínuforseti segir að Úkraína muni ekki fallast á friðarsamkomulag sem feli í sér að ríkið gefi eftir landsvæði í hendur Rússa. Donald Trump Bandaríkjaforseti sagði í gærkvöldi að friðarsamkomulag fæli í sér skiptingu á landsvæðum.

Greint var frá því í gær að Trump og Vladimír Pútín Rússlandsforseti ættu fund í Alaska þann 15. ágúst, þar sem þeir munu freista þess að ná saman um hvernig ætti að binda enda á innrásarstríð Rússlands í Úkraínu, án þess að Selenskí eða nokkur annar Úkraínumaður sitji við borðið.

Trump lét hafa eftir sér eftir að friðarsamkomulag ætti eftir að fela í sér skiptingu á landsvæðum. Hann tilgreindi ekki hvaða landsvæði hann átti við en Rússar hafa náð stjórn yfir öllu Lúhansk héraði og stærstu hlutum Dónetsk-, Sapóríssjíu- og Khersonhéruðum.

Í færslu á Telegram segir Selenskí að Úkraína muni ekki gefa hernámsliðum landið sitt. Allar lausnir án Úkraínu séu „lausnir gegn friði“.

CBS greindi frá því í nótt að Trump hafi beitt þrýstingi á aðra Evrópuleiðtoga að samþykkja vopnahléstillögu sem felur í sér að Úkraína gefi eftir Donbassvæðið eins og það leggur sig í hendur Rússlands og að Rússland haldi stjórn yfir Krímskaganum öllum. 

Á móti þyrfti Rússland að gefa eftir Sapóríssjíu- og Khersonhéröð, sem eru sem stendur undir stjórn Úkraínuhers.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×