Fótbolti

„Ekki sáttir við að Ís­lendingur kæmi að kenna þeim“

Valur Páll Eiríksson skrifar
Heimir Hallgrímsson þjálfar í Knattspyrnuakademíu Vals þessa vikuna ásamt sonum sínum.
Heimir Hallgrímsson þjálfar í Knattspyrnuakademíu Vals þessa vikuna ásamt sonum sínum. Vísir/Sigurjón

Heimir Hallgrímsson hefur verið landsliðsþjálfari Írlands í rúmt ár. Starfið tók á til að byrja með en hann segist vera á réttri leið með írska liðið.

Heimir er hér á landi að þjálfa í fótboltaskóla Vals ásamt sonum sínum tveimur. Sumarfríinu fer hins vegar að ljúka og átökin að hefjast á ný með írska landsliðinu sem hann hefur stýrt í rúmt ár. Úrslitin hafa verið misgóð en Írland var í sterkum riðli í Þjóðadeildinni ásamt Englandi og Grikklandi. Tveir sigrar á Finnum og sigur á Búlgaríu í umspili í kjölfarið sýna hins vegar batamerki á leik liðsins.

Heimir kann vel við sig í starfi.

„Það var smá brekka í byrjun, menn voru ekki sáttir við að Íslendingur kæmi að kenna þeim eitthvað. En Írar er gott fólk og svipaðir okkur á svo margan hátt. Maður tengir við þá. Það er mikil fagmennska og ég er mjög ánægður að vera þarna,“ segir Heimir.

Ekki besti þjálfarinn í teyminu

Hann segir teymi sitt þá gott en auk Guðmundar Hreiðarssonar eru aðstoðarþjálfarar hans fyrrum landsliðsmaðurinn John O'Shea og Paddy McCarthy sem lék lengi vel með Crystal Palace í ensku úrvalsdeildinni.

Sambandið virðist gott á milli Heimis Hallgrímssonar og Johns O'Shea.Getty/Stephen McCarthy

„Maður lærir af öllum sérfræðingunum í kringum sig. Það er auðvitað þannig sem maður vill hafa þetta - að maður læri af þeim sem maður fær til að aðstoða sig. Ég er ofboðslega heppinn með stjórnarmenn en sérstaklega aðstoðarþjálfara og þá sem eru í kringum þjálfarateymið. Það er magnað lið. Ég er ekki besti þjálfarinn í hópnum,“ segir Heimir og glottir við tönn. 

Horft til framtíðar

Írska liðinu hefur gengið misvel undanfarin ár og leikmannahópur liðsins að einhverju leyti ekki á sama kaliberi og áður, þegar menn á við Damien Duff, Roy Keane og Robbie Keane héldu uppi leik liðsins.

Fram undan er undankeppni HM þar sem Írland er í riðli með Ungverjum, Armenum og Portúgal. Ærið verkefni bíður Heimis í haust.

„Það er búinn að vera hægur stígandi. Það eru nokkrir leikmenn sem eru að vaxa. Við erum ekki með marga úrvalsdeildarleikmenn. Kannski öðruvísi en áður var þegar Írar voru með leikmenn í bestu liðunum á Englandi, fyrirliða og í Evrópukeppnum og svo framvegis. Við erum ekki með þennan stóra leikmann, en eru með nokkuð góða og efnilega leikmenn sem vonandi verða þessir stóru leikmenn í framtíðinni,“ segir Heimir.

Fréttina má sjá í spilaranum að ofan. Að neðan má sjá það í heild.

Klippa: Heimir ræðir írska landsliðið

Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×