Körfubolti

Ís­land í átta liða úr­slit eftir ótrú­lega endur­komu

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Hollendingar réðu ekki við „íslensku geðveikina.“
Hollendingar réðu ekki við „íslensku geðveikina.“ FIBA

Íslenska U-20 ára kvennalandsliðið í körfubolta komið í 8-liða úrslit Evrópumótsins sem fram fer í Portúgal eftir ótrúlegan endurkomusigur á Hollandi.

Ísland komst upp úr riðli sínum á mótinu og mætti Hollandi í 16-liða úrslitum. 

Íslenska liðið í upphafi leiks.FIBA

Leikurinn byrjaði ekki vel og sóknarleikur Íslands var í lamasessi allan 1. leikhluta. Staðan að honum loknum 22-14 Hollandi í vil.

Það var allt annað að sjá íslenska liðið í 2. leikhluta. Varnarleikurinn small og flæðið varð betra í sókninni. Svo vel gekk leikhlutinn að Ísland leiddi í hálfleik, 34-33. Því miður fór Holland hamförum í 3. leikhluta og virtist sem sætið í 8-liða úrslitum væri úr augsýn.

Ólafur Jónas Sigurðsson er þjálfari liðsins.FIBA

Íslenska liðið gaf allt sem það átti í 4. leikhluta og þegar hann var hálfnaður hafði Holland aðeins skorað tvö stig. Á sama tíma hafði íslenska liðið gert 11 stig og munurinn allt í einu kominn niður í þrjú stig.

Áfram hélt flugeldasýningin, Ísland raðaði niður stigunum og þó Hollendingar hafi vaknað af værum blundi þá var það hreinlega of seint. Lokatölur 77-74 Íslandi í vil og sæti í 8-liða úrslitum komið í hús.

Íslenski bekkurinn fagnar.FIBA

Fjórir leikmenn Íslands skoruðu tíu stig eða meira:

  • Ása Lind var stigahæst með 18 stig. Hún tók einnig 5 fráköst.
  • Jana Falsdóttir skoraði 16 stig, tók fjögur fráköst og gaf tvær stoðsendingar. 
  • Dzana Crnac setti 12 stig, tók þrjú fráköst og gaf eina stoðsendingu. 
  • Rebekka Rut Steingrímsdóttir skoraði 11 stig, tók fimm fráköst og gaf fjórar stoðsendingar.
  • Sara Líf Boama skoraði tvö stig og gaf jafn margar stoðsendingar ásamt því að taka 11 fráköst.
Jana Falsdóttir var mögnuð í kvöld.FIBA
Dzana Crnac átti virkilega góðan leik.FIBA
Ása Lind var stigahæst hjá Íslandi.FIBA
Sara Líf Boama reif niður hvert frákastið af fætur öðru.FIBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×