Íslenski boltinn

„Lé­legasti leikurinn okkar í sumar“

Sesselja Ósk Gunnarsdóttir skrifar
Óskar Hrafn talaði hreint út að leik loknum.
Óskar Hrafn talaði hreint út að leik loknum. Vísir/Diego

Óskar Hrafn Þorvaldsson, þjálfari KR í Bestu deild karla í fótbolta, talaði ekki undir rós eftir tap sinna manna í Vestmannaeyjum. Sigurmark ÍBV kom í blálokin en það hafði legið lengi í loftinu.

„Þetta er auðvitað svekkjandi, en þetta lá í loftinu. Við vorum vissulega meira með boltann en við náðum ekki að opna þá nægilega oft. Þegar við töpuðum boltanum, þá töpuðum við boltanum illa. Það er ekkert við þessu að segja, ég myndi halda að þetta sé okkar lélegasti leikur í sumar. Við áttum raunverulega ekki neitt skilið úr þessum leik, því miður,“ sagði Óskar Hrafn eftir leik.

Þér finnst þessi úrslit sanngjörn?

„Ég held ég geti ekki staðið hérna og logið að þér og sjónvarpsáhorfendum, þetta voru sanngjörn úrslit.“

Það voru mikið af sendingum sem fóru forgörðum hjá KR-ingum og áttu þeir í basli með að verjast skyndisóknum heimamanna.

„Uppleggið var að færa boltann hratt og reyna fara í þau svæði sem opnast, þar sem við erum búnir að draga menn úr stöðum. Það vantaði upp á einbeitingu í sendingum og grimmdina í návígum. Fyrst og síðast þá erum við erum að tapa boltanum á slæmum stöðum, stundum erum við fáir í vörn og í slæmu jafnvægi og þá er mikilvægt að passa upp á boltann.“

„Við vorum að reyna erfiðar sendingar og þvinga hlutina. Þetta er alvöru lærdómur að ef þú passar ekki upp á boltann á móti liði eins og ÍBV, að þá er þér refsað.“

KR situr í næst neðsta sæti deildarinnar með 17 stig og eru 5 leikir eftir í deildinni eða þar til hún skiptist í efri og neðri hluta. Alvöru slagur fram undan hjá KR-ingum þar sem 4 af 5 leikjum eru á móti liðum í efri hluta deildarinnar.

„Frammistaðan fer meira fyrir brjóstið á mér heldur en að við höfum tapað þessum leik, því mér fannst frammistaðan ekki góð og það er eitthvað sem við verðum að laga í næsta leik.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×