Íslenski boltinn

KR sækir Arnar Frey af bekknum hjá HK

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Mættur í Vesturbæinn.
Mættur í Vesturbæinn. Vísir/Diego

Markvörðurinn Arnar Freyr Ólafsson er á leið til KR í Bestu deild karla í fótbolta. Þar með hafa KR-ingar leyst markmannsvandræði sín en Sigurpáll Sören Ingólfsson, varamarkvörður liðsins, ökklabrotnaði á dögunum.

Fyrir skemmstu kom í ljós að KR væri í leit að nýjum markverði til að Halldór Snær Georgsson hefði samkeppni á æfingu. Þá vantaði liðinu hreinlega markvörð svo útispilarar þyrftu ekki að setja á sig hanska á æfingu. Ástæðan var sú að Sigurpáll Sören meiddist illa og því voru góð ráð dýr.

Nú hefur HK tilkynnt að félagið hafi samþykkt tilboð KR í hinn 32 ára gamla Arnar Freyr. Í tilkynningu HK segir:

„Arnar Freyr er einn leikjahæsti leikmaður í sögu HK og spilaði fyrir félagið 265 leiki. Hann gekk til liðs við HK árið 2016 og varð fljótt að lykilleikmanni liðsins. Hann hefur allan sinn HK feril verið fyrirmynd fyrir unga leikmenn félagsins og verið dyggur þjónn fyrir félagið, bæði innan og utan vallar.“

Arnar Freyr varð fyrir því óláni að slíta hásin á síðasta ári. Hann hefur náð sér af þeim meiðslum og spilað átta leiki í deild- og bikar fyrir HK á tímabilinu.

Hann hefur hins vegar undanfarið setið á bekknum þar sem Ólafur Örn Ásgeirsson hefur hirt stöðu aðalmarkvarðar hjá félaginu.

HK er í 5. sæti Lengjudeildar með 27 stig, jafn mörg og Þór Akureyri sem er sæti ofar. Þróttur Reykjavík er með 28 stig í 3. sæti, Njarðvík 31 stig þar fyrir ofan og ÍR situr á toppnum með 32 stig. Efsta lið Lengjudeildar fer beint upp í Bestu deildina á meðan liðin í 2. til 5. sæti fara í umspil.

KR er í 11. sæti Bestu deildar, stigi frá öruggu sæti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×