Lífið

Fann ástina á Balí en nýtur hennar í Kóreu

Auður Ösp Guðmundsdóttir skrifar
Hrefna segist síst af öllu hafa átt von á að enda á þessum stað í lífinu.
Hrefna segist síst af öllu hafa átt von á að enda á þessum stað í lífinu. Samsett

Þegar Hrefna Marcher Helgadóttir lagði af stað einsömul til Balí sumarið 2018, vissi hún ekki að ferðalagið ætti eftir að snúa lífi hennar á hvolf. Þar hitti hún Eric Poole, bandarískan hermann sem hún eyddi einum sólarhring með, og síðan var ekki aftur snúið.

Í dag býr hún á herstöð í Suður-Kóreu með eiginmanni sínum og þriggja ára syni þeirra, eftir að hafa flakkað á milli heimsálfa og þurft að endurmeta eigin væntingar varðandi framtíðina.

Í leit að ævintýrum

Upphaf þessarar sögu má rekja til þess að árið 2018 var Hrefna, þá 25 ára gömul, stödd á þriggja vikna  „sóló“ ferðalagi á paradísareyjunni Balí í Indónesíu.

„Á þessum tíma bjó ég í Kaupmannahöfn og var þar í mastersnámi í stafrænni nýsköpun og stjórnun við ITU háskólann. Mig hafði alltaf dreymt um að ferðast ein til Balí og fór þangað í þrjár vikur þetta sumar; ferðaðist á milli mismunandi staða, nældi mér í köfunarréttindi og stundaði jóga. Áður en ég fór út þá var ég búin að setja mér tvær reglur: Ég ætlaði ekki að drekka áfengi og ég ætlaði sko alls ekki að standa í einhverju strákaveseni!“

Á meðan Hrefna var á Balí var hún inni á Tinder forritinu en það var þó ekki vegna þess að hún var í kærastaleit heldur til að komast í kynni við aðrar ungar konur sem voru líka að ferðast einar og voru í leit að félagsskap.

Var kominn með nóg af djammi

„Ég kynntist þannig mörgum stelpum sem voru að ferðast einar eins og ég og eignaðist margar vinkonur. Ég er ennþá í bandi við sumar þeirra í dag. Ég hafði skrifað á prófílinn minn á Tinder að ég væri stödd á Balí og væri í leit að ævintýrum. Svo gerðist það eitt kvöldið að ég fékk skilaboð frá ungum manni, með spurningunni: „Hvert er ævintýrið í kvöld?“ Ég svaraði honum að ég væri á leiðinni út að borða og svo bara gerðist það að hálftíma síðar hittumst við á veitingastað.“

Ungi maðurinn sem um ræðir reyndist vera 25 ára Bandaríkjamaður að nafni Eric Poole, sem var staddur á Balí ásamt vinum sínum. Hann var kominn með nóg af partýstandi í bili og hafði séð fyrir að sér að eiga rólega kvöldstund. Þau Hrefna eyddu kvöldinu saman og eftir það var ekki aftur snúið. 

Eini gallinn var sá að Eric átti bókað flug heim kvöldið á eftir.

„Við náðum þess vegna einum sólarhring saman, við fórum á ströndina daginn eftir og keyrðum um og svo þurfti hann bara að fara á flugvöllinn,“ segir Hrefna.

Hrefna og Eric kynntust árið 2018 og tæpu ári síðar voru þau orðin hjón.Aðsend

Gifting í Las Vegas

Eric er frá Flórída en var á þessum tíma að sinna herþjónustu í Japan fyrir bandaríska flugherinn. Næstu vikur og mánuði gerðust hlutirnir hratt.

„Við vorum daglega í sambandi, og tveimur mánuðum seinna heimsótti hann mig til Kaupmannahafnar og svo ferðuðumst við saman um Evrópu, fórum í svona litla Evrópureisu. Á þessum tíma átti ég eitt ár eftir af náminu mínu í ITU, þannig að við vorum í nokkurskonar fjarsambandi í heilt ár. En við nýttum hvert tækifæri sem gafst til að hittast; ég fór til Japan um áramótin, svo fórum við saman til Flórída að hitta fjölskylduna hans og sumarið eftir kom Eric til Kaupmannahafnar og þaðan fórum við í Ítalíuferð með fjölskyldunni minni. Um það leyti sem ég var að útskrifast úr skólanum fékk Eric síðan boð um flutning til Montana í Bandaríkjunum. Og hann bað mig um að flytja þangað með sér,“ segir Hrefna.

Hún stóð þarna á ákveðnum tímamótum.

„Ég var ekki komin með vinnu og það var allt í lausu lofti og ég vissi ekkert hvað myndi taka við. Þannig að ég ákvað að pakka niður í töskur og flytja frá Kaupmannahöfn og heim til mömmu og pabba á Íslandi. Það er auðvitað aðeins meira en að segja það að ætla að flytja til Bandaríkjanna. Og af því að við vorum ekki gift á þessum tíma þá þýddi það að ég gat ekki dvalið í landinu lengur en í 90 daga í einu. Ég bjó þess vegna á Íslandi næstu mánuðina og flaug tvisvar út til Bandaríkjanna og var þar í þrjá mánuði í senn. Svo kom bara að því að við þurftum að ákveða hvað við ætluðum að gera og þá ákváðum við að gifta okkur. Þetta var árið 2019.“

Hvíta kapellan

Giftingarathöfnin fór fram í Little White Chapel í Las Vegas en umrædd kapella hefur komið við sögu í fjölmörgum þekktum Hollywood kvikmyndum og sjónvarpsþáttum, þar á meðal í gamanmyndinni Hangover og í Friends þáttunum.

„Þeir sem þekkja mig best gerðu örugglega ráð fyrir að ég væri orðin eitthvað klikkuð, af því að þetta er alls ekki eitthvað sem er í stíl við minn karakter. Ég hafði auðvitað alltaf séð fyrir mér að þegar ég myndi gifta mig þá myndu mamma og pabbi og systkini mín og fjölskylda og vinir vera viðstödd. Þetta vorum bara við tvö, prestur og tveir vottar. Þetta var lítil og falleg athöfn en mér fannst voða leiðinlegt að hafa ekki fjölskylduna mína hjá mér. Þetta var ótrúlega gaman, en á sama tíma var þetta líka svolítið skrítið -og mjög tregablandið. “

Kvöldið endaði síðan öðruvísi en ætlað var.

„Eftir athöfnina áttum við pantað borð á rosalegum flottum veitingastað en við komumst aldrei þangað af því að ég varð bara fárveik. Þetta hefur örugglega verið eitthvað spennufall, líkaminn var bara búinn á því. Við fórum og lögðum okkur- og fengum okkur svo pítsu. Kvöldið endaði semsagt þannig – pítsa á kósýfötunum!“

Nýgift og hamingjusöm.Aðsend

Var með fyrirfram ákveðnar hugmyndir

Eftir að Hrefna var komin út til Montana fékk hún starf hjá Marel á Íslandi og var svo heppin að hún gat sinnt starfinu að mestu leyti í fjarvinnu. Í júlí árið 2022 kom frumburður þeirra hjóna, Snorri Júlíus Marcher Ericsson síðan í heiminn.

Úti í Montana bjó fjölskyldan á Malmstrom Air Force Base (MAFB) - flugherstöð í Cascade-sýslu, rétt austan við Great Falls borg. 

Að búa á lokaðri herstöð, þar sem vopnaðir verðir standa vaktina alla sólarhringinn, er skiljanlega frekar sérstök upplifun eins og Hrefna lýsir því.

Snorri, sonur Eric og Hrefnu kom í heiminn árið 2022 og er alinn upp á herstöð.Aðsend

„Ég skal sko alveg viðurkenna það að áður en ég flutti út til Bandaríkjanna þá var ég með fyrirfram hugmyndir og fordóma. Konur sem eru giftar hermönnum, þetta er ákveðinn lífstíll og mjög margar af þessum konum eru heimavinnandi. Á þessum tíma var líka mikið í gangi í bandarísku samfélagi, eins og Black Lives matter. En ég tek þetta allt saman til baka í dag. Montana er yndislegur staður – og fólkið líka. Við urðum aldrei vör við rasisma eða neitt slíkt. 

Eftir að eignaðist barn sjálf þá get ég ekki annað en tekið ofan af fyrir þeim konum sem kjósa að vera heimavinnandi – það er svo sannarlega ekki auðvelt starf!

Barnvænt samfélag

Um mitt síðasta ár var síðan ljóst að fjölskyldan væri á leið til Kóreu. Það liðu tæpir fimm mánuðir þar til þau voru flutt þvert yfir hnöttinn frá miðvesturríkjum Bandaríkjanna.

„Þetta virkar þannig þegar þú ert í hernum að þú veist aldrei hversu lengi þú ert að fara að vera á hverjum stað. En þú getur samt sett fram óskir um staðsetningu. Um leið og við vorum komin til Montana á sínum tíma þá stefndum við á að komast annað. Við vorum búin að reyna heillengi að fá það í gegn að Eric yrði „stationed“ einhvers staðar í Evrópu, þannig að við gætum verið nær fjölskyldunni minni. Það gekk samt ekkert að fá það í gegn. En það er semsagt þannig að ef þú býðst til að koma til Kóreu í eitt ár þá eru meiri líkur á að þú fáir að fara á „draumastaðinn“ eftir það.

Það var skiljanlega mikill viðsnúningur að koma frá Bandaríkjunum til Kóreu.Aðsend

Ég hafði auðvitað aldrei komið til Kóreu áður. Ég hugsaði með mér að í versta falli myndum við bara vera þarna í eitt ár og svo búið. En ég leit fyrst og fremst á þetta sem mjög spennandi ævintýri; það eru ekkert allir sem fá þetta tækifæri.“

@hrefnam Föstudagskvöld í Kóreu🌇 . . . #ísland #kórea #diml ♬ Save My Soul - noahrinker

Herstöðin í Kóreu þar sem fjölskyldan býr er staðsett í Osan, sem er í tæplega 90 mínútna akstursfjarlægð frá höfuðborginni Seoul. Herstöðin er í raun eins og lítið þorp; þar er matvörubúð, líkamsræktarstöð og sundlaug, veitingastaðir og verslanir.

Úti í Kóreu gengur sonur Hrefnu í leikskóla og unir sér svo sannarlega vel.

„Núna hef ég auðvitað ekki reynslu af íslenska leikskólakerfinu en ég get ímyndað mér að það sé meiri agi og utanumhald hérna úti í Kóreu. Hérna byrjar bóknám til dæmis miklu fyrr. Í lok hvers dags fáum við skýrslu yfir allt; hversu vel hann borðaði og hvað var í matinn og hversu lengi hann lagði sig og þess háttar. Þó að skóladagurinn sé frekar stuttur þá þýðir það samt ekki að kennslan sé búin af því að flestir krakkar eru í hinum og þessum aukatímum eftir skóla. Ég hef tekið eftir því að það er rosalega mikið lagt upp úr tónlistarnámi hjá börnum hérna úti. Það er mjög algengt að krakkar séu sendir í píanótíma og líka í taekwondo og í enskukennslu.“

@hrefnam Inni leiksvæðin í Kóreu eru mesta snilld sem ég veit! 🎠🧸🚗⚽️🍡 . . . #kidscafe #leiksvæði #playcafe #island #ísland #suðurkórea #kórea #milso #militaryspouse #osanafb ♬ original sound - hrefnam

Hefur þurft að færa fórnir

Aðspurð um hvort eitthvað hafi komið henni á óvart við lífið og menninguna í Kóreu segir Hrefna að það hafi fyrst og fremst verið hversu barnvænt samfélagið er – sérstaklega í ljósi þess að fæðingartíðni í Kóreu er afar lág.

„Það eru leikvellir og „play cafés“ á hverju horni og í verslunarmiðstöðvum eru sérherbergi fyrir brjóstagjöf og bleyjuskipti. Á veitingastöðum er alltaf komið með sér diska og hnífapör fyrir börnin. Það er líka mjög algengt að börn labbi ein í og úr skólanum, það kom mér virkilega á óvart að sjá það.“

Eins og planið er núna stendur til að fjölskyldan muni búa í Kóreu þar til í lok þessa árs. Hrefna bindur sterkar vonir við að eftir það muni þau geta flutt til Evrópu og verið þar næstu árin. Hún hefur þurft að gefa ákveðna hluti upp á bátinn, en hún kveðst þó sannarlega ekki sjá eftir neinu.

Hrefna er hæstánægð með lífið sem „military wife.“Aðsend

„Að eiga maka sem gegnir herþjónustu þýðir að þú þarft að færa ákveðnar fórnir. Það er mikið flakk sem fylgir þessum lífsstíl og þetta er mikið álag á fjölskyldulífið. Ég er til dæmis ekki að vinna núna á meðan við búum úti í Kóreu. En aftur á móti er ég að fá rosalega margt í staðinn. Ég hef tekið eftir því að sumum finnst að þessi lífsstíll henti ekki þegar maður er með ung börn - en þetta er engu að síður raunveruleikinn okkar núna og strákurinn okkar er mjög hamingjusamur og líður vel. Ég bjóst aldrei við að enda á þessum stað í lífinu, en svona er þetta bara, lífið bara gerist einhvern veginn.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.