Erlent

Brú skóf þakið af tveggja hæða rútu

Jón Ísak Ragnarsson skrifar
Brúin skóf þakið af rútunni.
Brúin skóf þakið af rútunni.

Tveggja hæða rútu var ekið á brú í Manchester í gær með þeim afleiðingum að þakið brotnaði af og minnst fimmtán farþegar fóru á spítala.

Í myndbandi frá dyrabjöllumyndavélakerfi sést þegar rútunni var ekið undir of lága brú sem skefur allt þakið af og skilur það eftir í bútum á götunni.

Lögregla, sjúkraliðar, þyrla og tíu sjúkrabílar voru kallaðir á vettvang, og lýst var yfir neyðarástandi um skamma stund.

Þrír eru alvarlega særðir eftir slysið, en fimmtán eru á spítala og allt að sautján hlutu einhver meiðsl.

Í ljós hefur komið að rútan var ekki á sinni hefðbundnu leið.

Vernon Everitt, sem fer fyrir rannsókn málsins hjá lögregluyfirvöldum í Manchester, segir að hugurinn sé fyrst og fremst hjá þeim sem voru í rútunni.

„Við gerðum allt sem við gátum til að styðja við sjúkraliða á vettvangi, sumir fengu aðhlynningu á staðnum og aðrir voru sendir á spítala.“

„Rannsókn málsins er hafin og við vinnum náið með rannsóknarteymi lögreglunnar á Manchestersvæðinu og rútufyrirtækinu Stagecoach,“ segir Vernon við Telegraph.

Árið 2023 keyrði önnur tveggja hæða rúta undir sömu brú með svipuðum afleiðingum, en þá voru engir farþegar um borð. Önnur tveggja hæða rúta keyrði undir brúna 2020 og þá slösuðust þrír sem voru í rútunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×