Innlent

Einum vísað til Albaníu en þrír enn í varð­haldi

Agnar Már Másson skrifar
Lögregla segist hafa fundið fíkniefni í húsnæðinu að Aðalbraut 37 á Raufarhöfn eftir umfangsmikla húsleit í júní. Síðan þá hafa verið gerðar fleiri húsleitir í tengslum við sömu rannsókn.
Lögregla segist hafa fundið fíkniefni í húsnæðinu að Aðalbraut 37 á Raufarhöfn eftir umfangsmikla húsleit í júní. Síðan þá hafa verið gerðar fleiri húsleitir í tengslum við sömu rannsókn. Skjáskot/Ja.is

Einum þeirra sem handteknir voru í tengslum við umfangsmikla rannsókn á fíkniefnaframleiðslu á Norðurlandi og víðar hefur verið vísað úr landi til Albaníu. Þrír eru enn í gæsluvarðhaldi.

Eyþór Þorbergsson, aðstoðarsaksóknari hjá lögreglunni á Norðurlandi eystra, staðfestir við fréttastofu að einn fjórmenninganna sem setið hafa í gæsluvarðhaldi í tengslum við rannsókn lögreglunnar á skipulagðri brotastarfsemi og umfangsmikilli fíkniefnaframleiðslu hafi verið sendur til Albaníu í gærmorgun. Rúv greindi fyrst frá.

Þrír eru enn í gæsluvarðhaldi en spurður hvort þeir séu einnig Albanar svarar Eyþór neitandi. Rannsókn málsins stendur enn yfir og lögregla hefur haldið spilunum þétt að sér.

Lögregluaðgerðunum hefur verið stýrt af Lögreglunni á Norðurlandi eystra og hafa farið fram húsleitir og handtökur víða um land, meðal annars í Reykjavík, á Raufarhöfn, í Kópavogi og í Borgarfirði, yfir nokkurra vikna tímabil.

Rannsókn málsins snýr að fíkniefnaframleiðslu og þá helst kannabis. Skarphéðinn segir þó önnur brot einnig vera til rannsóknar. Lögregla hefur handtekið bæði innlenda og erlenda einstaklinga.

Enn liggur ekki fyrir hvort einhver verði ákærður vegna málsins enda stendur rannsókn enn yfir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×