Innlent

Fundu fleiri vopn og hand­tóku suma á skemmtun á Sel­fossi

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Fjöldi lögregluþjóna var á vettvangi í aðgerðinni sem stóð yfir í tæpan klukkutíma.
Fjöldi lögregluþjóna var á vettvangi í aðgerðinni sem stóð yfir í tæpan klukkutíma.

Tvö skotvopn voru haldlögð í aðgerðum lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu þegar skoti var hleypt af á hótelinu Svarta Perlan við Tryggvagötu í miðbæ Reykjavíkur. Hluti þeirra fimm sem voru handteknir voru að skemmta sér á útihátíð á Selfossi.

Það var föstudagskvöldið 11. júlí sem fjölmennt lið lögreglu lokaði fyrir umferð um Tryggvagötu frá Borgarbókasafninu niður Geirsgötu. Litlar upplýsingar var að fá um kvöldið um aðgerðirnar en í dagbók lögreglu morguninn eftir var greint frá því að fimm hefðu verið handteknir eftir að hleypt hafði verið af skotvopni.

E. Agnes Eide Kristínardóttir, yfirmaður miðlægrar rannsóknardeildar lögreglu, segir að tvö skotvopn hafi verið haldlögð í aðgerðum lögreglu umrædda nótt auk hnífa og fleiri vopna. Alls hafi fimm verið handteknir um nóttina og hluti þeirra á útihátíðinni Kótilettunni á Selfossi í kjölfar aðgerðanna við Tryggvagötu í Reykjavík.

Agnes segir málið nú á forræði lögreglunnar við Vínlandsleið í Grafarvogi, einni af fjórum stöðvum lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. Hildur Rún Björnsdóttir, lögreglufulltrúi við Vínlandsleið, segir upphaf málsins hafa verið á þeirri stöð og þar verði rannsókn þess sinnt.

Hildur bætir við að auk þeirra fimm sem handteknir voru um nóttina hafi fleiri verið handteknir í kjölfarið og yfirheyrðir. Sakborningar í málinu eru ungir karlmenn í kringum tvítugt.


Tengdar fréttir

Hleypti líklega óvart úr

Talið er að skoti hafi verið hleypt af óvart síðastliðið föstudagskvöld á hótelherbergi Svörtu perlunnar í miðbæ Reykjavíkur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×