Erlent

Bretar hyggjast lækka kosningaaldur í sex­tán ár

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Keir Starmer forsætisráðherra mætir á kjörstað í London sumarið 2024 ásamt eiginkonu sinni Victoriu.
Keir Starmer forsætisráðherra mætir á kjörstað í London sumarið 2024 ásamt eiginkonu sinni Victoriu. Getty Images/Jakub Porzycki

Bresk stjórnvöld hafa lagt fram frumvarp sem kveður á um að kosningaaldur í þingkosningum verði lækkaður í 16 ár. Verði frumvarpið samþykkt gæti Bretland orðið meðal fyrstu Evrópuríkja til að heimila 16 og 17 ára ungmennum að taka þátt í kosningum. 

Í Skotlandi, Wales og á Ermasundseyjum hefur ungt fólk þegar fengið kosningarétt í sveitarstjórnarkosningum, og færu landskosningar nú í sama farveg.

„Ungt fólk á að fá að hafa rödd í framtíð lýðræðis okkar,“ sagði Rushanara Ali, ráðuneytisstjóri í neðri deild breska þingsins, þegar hún kynnti frumvarpið í dag. Hún benti á að ríkisstjórnin hefði lofað að efla lýðræðið og tryggja heilindi kosninga.

Tillögurnar eru liður í víðtækari endurskoðun á reglum um kosningaþátttöku. Gert er ráð fyrir að rafræn persónuskilríki, svo sem stafrænt ökuskírteini og bankakort gefin út í Bretlandi, verði tekin gild sem kjörskírteini.

Frumvarpið hefur fengið stuðning víða, meðal annars frá samtökunum Electoral Reform Society, sem segja breytinguna hjálpa ungmennum að taka fyrstu skrefin í lýðræðislegri þátttöku. Forsætisráðherrann Keir Starmer segir að ungt fólk sem „greiði“ inn í kerfið eigi að fá að segja sína skoðun á hvernig verja eigi fjármununum.

En gagnrýni hefur einnig komið fram, einkum frá Íhaldsflokknum. Paul Holmes þingmaður flokksins benti á að 16 ára ungmenni megi hvorki kaupa áfengi né giftast, en samkvæmt frumvarpinu ættu þau samt að fá að kjósa.

Frá árinu 2008 hafa nokkur ríki, þar á meðal Austurríki, Malta og Brasilía, heimilað 16 ára ungmennum að kjósa. Í flestum löndum heims, þar á meðal Íslandi, er lágmarksaldur 18 ár. Einnig eru dæmi þess að kosningaaldur sé miðaður við 21 ár, svo sem í Singapúr, Líbanon og Óman.

Þingmenn Pírata og ungliðasamtök hér á landi hafa talað fyrir lækkun kosningaaldurs á Íslandi i sextán ár. Þingmenn Samfylkingarinnar og Viðreisnar hafa sumir hverjir tekið undir og voru meðflutningsmenn í frumvarpi til Alþingis árið 2020 og aftur haustið 2024.

Frétt BBC




Fleiri fréttir

Sjá meira


×