Erlent

Átta börn fædd úr erfða­efni þriggja ein­stak­linga til að fyrir­byggja sjúk­dóma

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Gallaðir hvatberar geta valdið alvarlegum sjúkdómum og dauða.
Gallaðir hvatberar geta valdið alvarlegum sjúkdómum og dauða. Getty

Átta börn hafa fæðst á Bretlandseyjum úr erfðaefni þriggja einstaklinga, til að koma í veg fyrir arfgenga sjúkdóma vegna gallaðra hvatbera.

Hvatberar eru frumulíffæri sem hefur verið lýst sem orkustöð frumunnar. Þar fer fram frumuöndun en hún byggist á því að mynda orku úr næringu. Hvatberar erfast eingöngu frá móður en þeir geta verið gallaðir og valdið alvarlegum sjúkdómum og jafnvel dauða.

Breskir vísindamenn hafa hins vegar þróað aðferð til að koma í veg fyrir að gallaðir hvatberar erfist frá móður til barns. Aðferðin felur í sér að fósturvísar eru búnir til, annars vegar úr eggi móður og sáðfrumu föður og hins vegar úr gjafaeggi og sáðfrumu föður.

Frumukjarninn er síðan fjarlægður úr báðum fósturvísum en frumukjarna foreldranna, sem inniheldur erfðaefni þeirra, komið fyrir í fósturvísinn úr gjafaegginu, þar sem heilbrigðir hvatberar eru fyrir.

Fóstrið erfir þannig erfðaefni foreldra sinna og heilbrigða hvatbera gjafans.

Aðeins 0,1 prósent erfðaefnis barnsins kemur frá gjafanum.

Samkvæmt umfjöllun BBC er áætlað að eitt af hverjum 5.000 börnum fæðist með sjúkdóm sökum gallaðra hvatbera, þar sem orkumyndunin er ekki eins og hún á að vera. Vísindamennirnir áætla að nýja aðferðin verði notuð til að skapa 20 til 30 börn á ári.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×