Viðskipti

Orkan og Samkaup fá grænt ljós á sam­einingu

Agnar Már Másson skrifar
Samkaup reka Nettó en fjárfestingafélagið Skel rekur Orkuna og á þriðjungsjungshlut í lágvöruversluninni Prís.
Samkaup reka Nettó en fjárfestingafélagið Skel rekur Orkuna og á þriðjungsjungshlut í lágvöruversluninni Prís.

Samkeppniseftirlitið hefur samþykkt samruna Orkunnar og Samkaupa.

Í maí 2024 greindu Samkaup frá því í tilkynningu að viðræður væru hafnar um mögulegan samruna Samkaupa, Heimkaupa og Orkunnar. Samkaup og Heimkaup sameinuðust í maí. Skilyrði vegna kaupanna voru að Samkeppniseftirlitið (SKE) samþykkti að í viðskiptunum fælist ekki samruni sem beri að ógilda eða setja skilyrði fyrir samkvæmt 17. grein samkeppnislaga.

Í tilkynningu sem fjárfestingafélagið Skel, sem á Orkuna, sendi út í dag segir að SKE hafi lokið rannsókn en það hafi litið til upplýsinga í samrunaskrá, fyrirliggjandi gagna, fyrri rannsókna, auk þess sem sjónarmiða hafi verið aflað hjá markaðsaðilum, neytendum og öðrum hagaðilum í umsagnarferli.

Að mati Samkeppniseftirlitsins benda gögn og upplýsingar málsins ekki til þess að markaðsráðandi staða verði til eða styrkist, eða samkeppni sé að öðru leyti raskað með umtalsverðum hætti, segir í tilkynningu Skeljar. SKE telji því ekki tilefni til frekari rannsóknar eða íhlutunar vegna samrunans og er honum lokið á fyrsta fasa.

„Nú eru öll skilyrði kaupsamninga Orkunnar við hluthafa Samkaupa uppfyllt og ráðgert er að uppgjör viðskipta fari fram föstudaginn 18. júlí,“ segir í tilkynningunni. Í júlí var tuttugu og tveimur sagt upp á skrifstofu Samkaupa í hagræðingarskyni en árið 2024 nam tap Samkaupa 900 milljónum króna saman borið við 267 milljóna króna hagnað árið 2023.

Samkaup reka rúmlega 60 verslanir víðs vegar um landið undir vörumerkjunum Nettó, Kjörbúðin, Krambúðin og Iceland. Og sem fyrr segir heyra Heimkaup undir Samkaup. Orkan starfrækir 72 orkustöðvar, 10 þvottastöðvar undir merkjum Löðurs, 6 hraðhleðslustöðvar, 2 vetnisstöðvar og 1 metanstöð. Þá á félagið 32 fasteignir og lóðir víðs vegar um landið, auk annarra eigna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×