Lífið

Endaði á geð­deild eftir notkun MDMA í sál­fræði­með­ferð

Magnús Jochum Pálsson skrifar
Hödd Vilhjálmsdóttir telur eitthvað skakkt við það að fólk sem berjist við alkahólisma neyti MDMA undir leiðsögn meðferðaraðila. Það geti ekki talist sem edrúmennska.
Hödd Vilhjálmsdóttir telur eitthvað skakkt við það að fólk sem berjist við alkahólisma neyti MDMA undir leiðsögn meðferðaraðila. Það geti ekki talist sem edrúmennska. Vilhelm

Hödd Vilhjálmsdóttir notaði MDMA í meðferð við áfallastreituröskun fyrir þremur árum sem endaði með því að hún fór inn á geðdeild. Þáverandi sálfræðingur Haddar, sem hefur síðan misst starfsleyfið, lagði henni til að bæta MDMA við EMDR-meðferð.

Hödd Vilhjálmsdóttir, almannatengill, lögfræðingur og fyrrverandi blaðamaður, opnaði sig um notkun MDMA í meðferð og hjálp að edrúmennsku í Facebook-færslu fyrr í dag.

„Aldrei neytt fíkniefna en í hjálp að edrúmennsku á ég að þvæla ofan í mig MDMA í Gatorade. Undir leiðsögn. Hvernig er það edrúmennska? Það skil ég ekki. Ég endaði á geðdeild. Blessunarlega fór ég heim að morgni og allt í góðu,“ skrifar Hödd í færslunni

„Þegar eitthvað verður smart - og já, ég er mjög frjálslynd - þá þýðir ekki endilega að það sé gáfulegt,“ skrifar hún jafnframt.

Fréttastofa heyrði hljóðið í Hödd til að ræða betur við hana um málið.

„Ég er að hætta að drekka og á svo að byrja að dópa“

Hödd hefur verið í um tíu ár í EMDR-meðferð sem er ólík hefðbundinni viðtalsmeðferð og miðar að því að hjálpa fólki að vinna úr áföllum. Hödd hefur góða reynslu af sjálfri EMDR en fyrir fimm árum hafi sálfræðingur hennar talið að ekki væri hægt að komast lengra með meðferðina.

„Sálfræðingurinn minn, sem missti nýlega leyfið sitt, sagði við mig að hún kæmist ekki lengra með mig, af því ég væri með það mikla áfallasögu, nema að setja MDMA inn,“ segir Hödd.

Sálfræðingurinn hafði í tvö ár beðið Hödd um að láta reyna á slíka meðferð en Hödd streist á móti.

„Mér fannst það eitthvað svo ótrúlega rangt, ég hef aldrei notað fíkniefni. Mér fannst það eitthvað svo skakkt, ég er að hætta að drekka og á svo að byrja að dópa,“ segir hún.

Á endanum féllst Hödd þó á að bæta MDMA við meðferðina og lýsir henni svo í stuttu máli: „Ég lenti í vondum höndum.“

„Ég kemst ekki út úr þessu ástandi“

Meðferðaraðilinn hafi að sögn Haddar ekki vitað fyllilega hvað hann væri að gera en á sama tíma hafi margt gott líka fyllt meðferðinni.

„Ég held að þetta hafi hjálpað mér helling upp á það að gera að þetta kláraði mörg áföll sem voru í kerfinu,“ segir Hödd. 

Af því maður fái ekki móral yfir neinu undir slíkum áhrifum þá geti maður unnið úr ýmsu. 

„Það er það skakka í þessu, mér finnst þetta að mörgu leyti það besta sem hefur komið fyrir mig. En á móti endaði ég uppi á geðdeild, sem ég má vera þakklát fyrir. Ég hringdi í vinkonu mína og sagði: ,Heyrðu ég kemst ekki út úr þessu ástandi‘.“

Hún hafi ekki kunnað á tilfinningarnar sem fylgdu áhrifunum og mögulega endað í geðrofsástandi þegar hún fór inn. Læknarnir sögðu henni að hún hafi verið heppin að vera á lífi því hvað sem er hefði getað gerst.

„Þetta var bara rússnesk rúlleta,“ hafi læknarnir sagt við Hödd.

Fólk sem viti ekki hvað það er að gera

„Eftir þetta hef ég aldrei farið í svona MDMA-meðferð en ég hef haldið áfram í EMDR. Og ég er hjá mjög góðri konu í EMDR núna,“ segir Hödd.

Sálfræðingur Haddar í dag telur að mögulega hafi kerfi Haddar ekki verið tilbúið fyrir notkun MDMA og því hafi málið farið á þennan veg. 

Þá telur Hödd það var útbreitt vandamál að ekki sé rétt staðið að notkun MDMA í meðferðum á Íslandi í dag.

„Þau sem eru að þessu í dag eru held ég fólk sem veit ekki hvað það er að gera. Það er það dapra, af því ég held að þetta geti verið alveg frábært,“ segir Hödd.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.