Erlent

Segja gengið á birgðirnar og hætta við vopnasendingar til Úkraínu

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Pete Hegseth, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna.
Pete Hegseth, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna. AP/Jacquelyn Martin

Varnarmálaráðuneyti Bandaríkjanna hefur ákveðið að hætta við ákveðnar vopnasendingar til Úkraínu, þar sem mönnum þykir hafa gengið heldur bratt á birgðir landsins.

„Þessi ákvörðun var tekin í kjölfar skoðunar á hernaðarstuðningi okkar við önnur ríki í heiminum og til að forgansraða hagsmunum Bandaríkjanna,“ sagði Anna Kelly, talsmaður Hvíta hússins, í yfirlýsingu.

Hún sagði styrk Bandaríkjahers hins vegar óumdeildan.

„Spyrjið bara Íran,“ bætti hún við.

Erlendir miðlar hafa eftir heimildarmönnum að yfirferð varnarmálaráðuneytisins hafi leitt í ljós að gengið hefði á birgðir af sumum vopnum og því yrðu umrædd vopn ekki send til Úkraínu, jafnvel þótt því hefði verið heitið.

Ekki er vitað um hvaða vopn er að ræða.

Bandaríkjamenn eru sagðir hafa séð Úkraínumönnum fyrir vopnum að andvirði 66 milljarða dala. Síðan Donald Trump tók aftur við embætti forseta hafa þeir hins vegar dregið úr stuðningi sínum og þrýst mjög á Evrópuríkin að gera betur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×