Erlent

Sakaður um morð­til­raun og akstur undir á­hrifum fíkni­efna

Samúel Karl Ólason skrifar
Rúmlega fimmtíu manns voru flutt á sjúkrahús eftir að maður ók inn í þvögu fólks í Liverpool í gær.
Rúmlega fimmtíu manns voru flutt á sjúkrahús eftir að maður ók inn í þvögu fólks í Liverpool í gær. AP/Jon Super

Maðurinn sem sakaður er um að hafa ekið inn í þvögu fólks í Liverpool í Englandi í gær, hefur verið formlega handtekinn. Hann er sakaður um morðtilraun og fyrir akstur undir áhrifum fíkniefna.

Rúmlega fimmtíu manns voru flutt á sjúkrahús eftir atvikið í gær en ellefu eru þar enn. Enginn er þó í lífshættu, samkvæmt lögreglu. Ekki er litið á atvikið sem hryðjuverk.

Maðurinn, sem er 53 ára gamall og frá West Derby í Liverpool, er í haldi lögreglu og hefur hann verið yfirheyrður í dag, samkvæmt frétt Sky News. Meðal annars er verið að reyna að finna svör við því af hverju hann ók inn á lokað svæði og á allt fólkið.

Eins og áður segir er talið að hann hafi verið undir áhrifum fíkniefna þegar hann ók inn á lokað svæði þar sem stuðningsmenn fótboltafélags Liverpool voru að fagna titli liðsins. Maðurinn er talinn hafa ekið á eftir sjúkrabíl sem sendur var á vettvang vegna hjartaáfalls og þannig hafi hann komist fram hjá vegatálmum kringum hátíðarsvæðið.

Maðurinn hefur ekki verið ákærður en lögreglan hefur til hádegis á morgun að ákæra hann eða sleppa honum úr haldi.

Myndefni af atvikinu fór fljótt í dreifingu á samfélagsmiðlum og samhliða því hóst mikil umræða um ökumann bílsins, hver hann væri og hvað honum hefði gengið til.

Mörg ósannindi hafa verið í dreifingu.

Þess vegna drifu forsvarsmenn lögreglunnar út upplýsingar um að maðurinn væri 53 ára gamall, hann væri hvítur og hann væri frá Liverpool. Þá var fljótt haldinn blaðamannafundur þar sem lögreglan sagði að ekki væri um hryðjuverk að ræða.


Tengdar fréttir

Niður­brotinn Klopp í sjokki

Jur­gen Klopp, fyrr­verandi þjálfari enska úr­vals­deildar­félagsins Liver­pool, segist í færslu á sam­félags­miðlum núna í morgun vera í sjokki og niður­brotinn vegna at­burðarins í Liver­pool­borg í gær þar sem að maður ók bíl sínum á hóp fólks sem var að fagna Eng­land­meistara­titli Liver­pool.

Fjögur börn í hópi þeirra mest slösuðu

Fjögur börn voru í hópi þeirra sem slösuðust þegar bíl var ekið á hóp fólks í Liverpool í kvöld. Málið er ekki rannsakað sem hryðjuverk. Einn hefur verið handtekinn og lögregla telur hann hafa verið einan að verki.

„Bara sjokk hvað maður var nálægt þessu“

Íslendingur sem var viðstaddur skrúðgöngu til heiðurs knattspyrnuliðinu Liverpool, þar sem bíl var ekið inn í þvögu fólks, segist í áfalli vegna atburðarins. Hún og foreldrar hennar voru steinsnar frá götunni þar sem bílnum var ekið í mannhafið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×