Skoðun

Ég er kominn heim

Askur Hrafn Hannesson skrifar

Á síðustu árum hef ég átt þann heiður að mynda fjölmörg ómetanleg vinatengsl við fólk á flótta. Hvert og eitt þeirra með sína sögu og með ólíkar aðstæður í sínu heimalandi. Öll eiga þau sameiginlegt að hafa neyðst til að yfirgefa heimili sitt, hvort sem að það sé vegna ofsókna, stríðs, ógnarstjórnar eða þjóðarmorðs.

Að yfirgefa heimili sitt, án vonar um að geta snúið nokkurn tímann aftur er einhver hræðilegasta tilhugsun sem ég get ímyndað mér. Að yfirgefa æskuslóðir, vini, fjölskyldu og annað sem að þú tengir við það að „vera heima”.

Það er einmitt þess vegna sem mér svíður inn að beini þegar ég verð vitni af þeim raunum sem fólk á flótta gengur í gegnum þegar það leitar að öryggi og eðilegu lífi í fjarlægum löndum. Það er með öllu óskiljanlegt að fólk skuli líða fordóma, hatur og ofbeldi fyrir það eitt að þurfa að flýja heimili sín.

Ekki nóg með það heldur er fólk á flótta gert að blórabögglum og sakað um að bera ábyrgð á öllu því sem illa gengur. Það er auðvelt að níðast á þeim sem upplifa enga samstöðu í samfélaginu.

Ef ekkert heimili er að finna í nýju landi, þá er manneskjan ennþá á flótta.

Rökleysan er algjör í þessum málum og það kristallast í máli Oscar Anders Florez Bocanegra sem hefur fundið nýtt heimili á Íslandi, og þá vísa ég ekki einungis til þess að hann eigi heimaland á ný, heldur fjölskyldu.

Brottvísun sendir ekki manneskju á flótta heim ef ekkert heimili er að finna í fæðingarlandinu.

Ferða- og búsetufrelsi er fyrir okkur öll.

Höfundur er frístundaleiðbeinandi.




Skoðun

Sjá meira


×