Körfubolti

„Ó­drepandi“ Knicks í sögu­bækurnar

Sindri Sverrisson skrifar
Karl-Anthony Towns lét ekkert stoppa sig í sigrinum í nótt.
Karl-Anthony Towns lét ekkert stoppa sig í sigrinum í nótt. Getty/Gregory Shamus

New York Knicks hafa gert það að ákveðinni listgrein í úrslitakeppni NBA-deildarinnar í ár að vinna upp stórt forskot mótherjanna. Það gerði liðið einnig í gærkvöld, í mögnuðum 106-100 sigri á Indiana Pacers.

Knicks sótti þennan sigur á útivöll en Indiana er áfram yfir í einvíginu, 2-1. Vinna þarf fjóra leiki til að verða austurdeildarmeistarar og spila úrslitaeinvígið um NBA-meistaratitilinn.

Karl-Anthony Towns fór á kostum fyrir Knicks í lokaleikhlutanum og skoraði alls 24 stig í leiknum auk þess að taka 15 fráköst, í afar torsóttum sigri.

Knicks lentu nefnilega heilum tuttugu stigum undir, 55-35, þegar um þrjár mínútur voru eftir af fyrri hálfleiknum í gær. 

Þetta er í þriðja sinn í þessari úrslitakeppni sem liðið vinnur leik eftir að hafa lent tuttugu stigum undir, oftast allra frá árinu 1998.

Áður höfðu Knicks lent tuttugu stigum undir í tveimur sigurleikja sinna gegn fráfarandi meisturum Boston Celtics.

Óhætt er að segja að Towns hafi leitt endurkomuna í gær en hann skoraði 20 af 24 stigum sínum í síðasta leikhlutanum, með Jalen Brunson á bekknum eftir fimm villur. 

Knicks voru sextán stigum undir um miðjan þriðja leikhluta og enn tíu stigum undir þegar fjórði leikhlutinn var að hefjast.

„Það er alvöru próf að lenda tuttugu stigum undir,“ sagði Towns eftir leik og bætti við: „Þetta var svona kvöld þar sem menn þurfa það hugarfar að þeir séu ódrepandi.“

Liðin mætast aftur annað kvöld á miðnætti, í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport 2. Í kvöld er hins vegar leikur Oklahoma City Thunder og Minnesota Timberwolves á dagskrá og hefst útsending klukkan hálfeitt í nótt.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×