Skoðun

Hvernig gengur nýjum kennurum í grunnskóla­kennslu?

Ingólfur Ásgeir Jóhannesson, Aðalheiður Anna Erlingsdóttir, Andri Rafn Ottesen, Maríanna Jónsdóttir Maríudóttir og Valgerður S. Bjarnadóttir skrifa

Kennarastarfið er þýðingarmikið starf í íslensku samfélagi og talsverðar áhyggjur hafa komið fram vegna kennaraskorts sem hefur aukist mjög á nýliðnum árum. Dæmi um aukinn kennaraskort er að haustin 2012 og 2013 voru tæplega 96% grunnskólakennara með réttindi en haustið 2023 var þetta hlutfall komið í 81,3% og hafði ekki verið lægra síðan árið 2020. Hluti af vandanum er að sumir nýir kennarar staldra stutt við í starfi og er brotthvarf nýliða úr kennslu þekkt vandamál annars staðar, til dæmis á Norðurlöndum.

Ástæður brotthvarfs kennara úr starfi eru margvíslegar. En það er hægt að hlúa að kennurum og ekki síst er þýðingarmikið að styðja við nýliða í starfinu. Nýlegar íslenskar rannsóknir gefa þó til kynna að misbrestur sé á því að stuðningurinn við nýju kennarana sé markviss og formlegur.

Höfundar þessarar greinar hafa um árabil rannsakað hvernig nýliðum gengur í starfi með því að fylgja eftir 18 nýjum kennurum tvö fyrstu árin þeirra í starfi. Það fólst í því að rætt var við sama kennarann tvisvar til fimm sinnum á eins til tveggja ára tímabili. Rannsóknarverkefnin voru raunar tvö: fyrst rætt við sjö karlkyns nýliða og í kjölfarið við ellefu kvenkyns nýliða. Tilgangurinn var sá að skoða sérstaklega reynsluheiminn sem annars vegar kennslukarlar og hins vegar kvenkyns nýliðar bjuggu við. Í báðum tilvikum var athyglinni beint að því hvernig mætti skapa aðlaðandi vinnuumhverfi og hvaða tækifæri væru til staðar og hvaða hindranir í vegi.

Sá þáttur í starfi skólanna sem reyndist mest styðja við starf nýliðanna var teymissamstarf sem hefur rutt sér til rúms í mörgum grunnskólum landsins. Með því móti er hver kennari ekki aleinn með ábyrgð á stórum hópi nemenda. Allir viðmælendur sögðu einnig frá því að vel hefði verið tekið á móti þeim við upphaf starfs og að samstarfsfólkið væri hjálpfúst. Í rannsóknum hefur komið fram að góðar móttökur og hversu vingjarnlegt samstarfsfólk sé við nýliðana skili mestum árangri ef formleg og reglubundin leiðsögn er líka til staðar sem hún var ekki nema í þriðjungi af tilvikum nýliðanna átján sem við ræddum við.

Í hvorri rannsókn fyrir sig kom margt forvitnilegt fram. Kennslukarlarnir lýstu því hvernig búist var við því af þeim að þeir væru góðir í að „halda aga“. Má túlka það sem fyrirfram gefnar hugmyndir um meðfædda hæfni karla. Þetta virðist þó hafa gefið þeim forskot vegna kyns og veitt þeim aukna ábyrgð. Á rannsóknartímanum lærðu karlarnir margt sem viðkom faglegri bekkjar- og agastjórnun sem þeir kunnu ekki við upphaf starfs.

Skoðað var sérstaklega jafnvægi vinnutíma og einkalífs hjá kvenkyns nýliðunum, þar sem sú umræða kom frekar upp meðal þeirra. Viðmælendurnir beittu ýmsum ráðum til að ná slíku jafnvægi og halda því, svo sem að vinna lengur á vinnustaðnum, taka sem fæst verkefni með sér heim og skoða ekki tölvupóst utan vinnutíma í skólanum.

Málþingið Hvernig gengur nýjum kennurum í grunnskólakennslu? verður haldið þann 28. maí 2025 kl. 13:30–15:30 í Hátíðarsal Háskóla Íslands. Þar verður sagt nánar frá rannsóknum okkar, brugðist við þeim af Sigrúnu Gunnarsdóttur, prófessor við Félagsvísindasvið Háskóla Íslands, og niðurstöðurnar ræddar í pallborðsumræðum með þátttöku skólastjórnanda og ungra kennara. Fyrirlestrar og umræður verða túlkaðar af táknmálstúlkum og einnig verður streymt frá fyrirlestrum og pallborðsumræðum. Málþingið er haldið af Rannsóknastofu um þróun skólastarfs við Menntavísindasvið Háskóla Íslands og Kennarasambandi Íslands.

Sjá hlekk: https://vimeo.com/event/5050326. Lesa má nánar um þetta rannsóknarverkefni hér: Nýliðar í grunnskólakennslu og kynjasjónarhorn.

Ingólfur Ásgeir Jóhannesson er fyrrverandi prófessor við Háskóla Íslands og Háskólann á Akureyri

Aðalheiður Anna Erlingsdóttir er kennari við Grunnskólann í Þorlákshöfn.

Andri Rafn Ottesen er samfélagsgreinakennari við Garðaskóla í Garðabæ.

Maríanna Jónsdóttir Maríudóttir er kennari við Urriðaholtsskóla í Garðabæ.

Valgerður S. Bjarnadóttir er lektor við Menntavísindasvið Háskóla Íslands.




Skoðun

Sjá meira


×