Körfubolti

Sam­félagið á Sauð­ár­króki ekki í vinnu­hæfu á­standi

Aron Guðmundsson skrifar
Stuðningsmenn Tindastóls bíða í ofvæni eftir leik kvöldsins.
Stuðningsmenn Tindastóls bíða í ofvæni eftir leik kvöldsins. Vísir/Hulda Margrét

Spennuþrungið andrúms­loft er ríkjandi á Sauðárkróki. Úr­slitin í Bónus deildinni í körfu­bolta ráðast þar í kvöld í odda­leik úr­slita­ein­vígis Tindastóls og Stjörnunnar. For­maður körfu­knatt­leiks­deildar Tindastóls segir fólk á þeim bænum ekki í vinnu­hæfu ástandi, allir séu með hugann við leik kvöldsins.

„Það er bara rosa­leg gleði og ánægja ríkjandi. Bara gaman að liðið sé komið svona langt og að við fáum þennan viðburð hingað til okkar á Sauðárkrók. Það eru allir bara rosa­lega glaðir, við ætlum að halda veislu og hafa gaman. Það er það sem að þetta snýst um,“ segir formaðurinn Dagur Þór Baldvinsson.

Og óhætt er að segja að öllu verði til tjaldað hjá Stólunum og búast má við að fólk mæti snemma á íþrótta­svæðið til þess að hita upp fyrir leik kvöldsins.

„Við byrjum snemma með dag­skrá þar sem að Auðunn Blön­dal, Sverrir Berg­mann, Úlfur Úlfur og fleiri stíga á stokk. Það verður gríðar­leg stemning hérna.“

Leikur sem gerir mikið fyrir rekstur deildarinnar en Dagur hefur ekki tekið það saman hversu mikið odda­leikur í úr­slita­ein­vígi í Síkinu getur fært þeim í kassann.

„Ég hef ekki tekið það saman og vil ekki vera að skjóta eitt­hvað út í loftið með það. Það er fínn peningur sem fylgir því að ná svona langt en á sama tíma er dýrt að halda úti svona liði, þetta kostar allt sitt en auðvitað er það plús að komast svona langt, það segir sig sjálft.“

Það er fyrir lifandis löngu upp­selt á leikinn og ljóst að færri komast að en vilja. Þetta er fjórða árið í röð þar sem úr­slitin í efstu deild ráðast í odda­leik í úr­slita­ein­víginu. For­maðurinn hefur fengið þó nokkrar fyrir­spurnir varðandi miða frá miða­lausum stuðnings­mönnum

„Já það eru ein­hverjir sem reyna það en þetta er bara búið og þýðir ekki neitt lengur.“

Tindastóll er á höttunum eftir öðrum Ís­lands­meistara­titli sínum en fari liðið með sigur af hólmi í kvöld verður það í fyrsta skipti sem liðið tryggir titilinn á heima­velli. Stjarnan er á sama tíma á höttunum eftir sínum fyrsta Ís­lands­meistara­titli.

Mikið er undir fyrir bæði lið og eins og gefur að skilja er stemningin sér­stök á Sauðárkróki í dag og sam­félagið þar vart í vinnu­hæfu ástandi af spenningi fyrir kvöldinu.

„Það er bara staðan. Fólk er með hugann við leikinn í kvöld. Það er bara mikil gleði og eftir­vænting ríkjandi í bænum. Það er rosa­lega gaman að geta boðið upp á odda­leik hér á Sauðárkróki í fyrsta skipti í sögunni.“

Dagur leyfir sér ekki að láta hugann reika til þess ef Tindastól tekst ætlunar­verk sitt og tryggir Ís­lands­meistara­titilinn á heima­velli í kvöld.

„Nei við ætlum bara að njóta leiksins og augna­bliksins, sjá hvert það leiðir okkur. Við fáum fal­legan dag á Sauðárkróki. Sólin skín og allir kátir.“

Odda­leikur Tindastóls og Stjörnunnar um Ís­lands­meistara­titilinn í körfu­bolta verður sýndur í beinni út­sendingu á Stöð 2 Sport klukkan átta. Upp­hitun fyrir leik hjá strákunum í körfu­bolta­kvöldi hefst klukku­stund fyrr, klukkan sjö.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×