Samstarf

Hálf öld af ást­ríðu og kapp­semi – Bílabúð Benna fagnar 50 ára af­mæli

Bílabúð Benna
 Benni og Beta taka fyrstu skóflustunguna að höfuðstöðum að Krókhálsi 9 árið 2007. Þau fagna fimmtíu ára farsælum rekstri um helgina og bjóða til veislu á laugardaginn.
 Benni og Beta taka fyrstu skóflustunguna að höfuðstöðum að Krókhálsi 9 árið 2007. Þau fagna fimmtíu ára farsælum rekstri um helgina og bjóða til veislu á laugardaginn.

Bílabúð Benna fagnar 50 ára stórafmæli á laugardaginn með veglegri afmælishátíð í nýjum höfuðstöðvum að Krókhálsi 9. Hátíðahöldin fara fram milli klukkan 12 og 16 og þar verður líf og fjör með hoppuköstulum, andlitsmálningu, ís og pylsum og sýningu á sögu fyrirtækisins.

„Það er ekki á hverjum degi sem fyrirtæki ná svona áfanga og því tilefni til að fagna,“ segir Tryggvi Benediktsson, framkvæmdarstjóri bifreiðasviðs hjá Bílabúð Benna og sonur eigendanna Benedikts Eyjólfssonar, sem ávallt er kallaður Benni og Margrétar Betu Gunnarsdóttur. „Við vildum í tilefni af hálfrar aldar sögu bjóða öllum sem hafa komið við sögu fyrirtækisins til veislu ásamt auðvitað gestum og gangandi.“

Benni með Daewooo bíl sem nutu mikilla vinsælda á sínum tíma.

Fjölskyldurekstur í þrjár kynslóðir

Bílabúð Benna hefur verið í eigu og rekstri sömu fjölskyldu frá upphafi. „Foreldrarnir unnu saman frá fyrsta degi – pabbi í verkstæðinu og mamma á skrifstofunni. Hún sá líka um póstverslunina og að varahlutir bárust um allt land til viðskiptavina. Ég byrjaði ungur sjálfur í breytiverkstæðinu og hef verið tengdur þessu alla tíð,“ segir Tryggvi. 

„Óli bróðir er framkvæmdastjóri systurfyrirtækisins Nesdekk, sem er í mikilli sókn, og systir okkar hefur einnig komið að verkefnum fyrir fyrirtækið. Sonur hennar vinnur í móttökunni þannig að þrjár kynslóðir starfa nú í fyrirtækinu. Við höfum alltaf unnið út frá þeim gildum að gera hlutina vel, á traustum grunni – og það hefur skilað okkur stöðugleika og vexti.“

Allt byrjaði í bílskúr

Sagan hófst árið 1975 þegar Benni, þá aðeins 17 ára gamall, stofnaði fyrirtækið í bílskúr.

„Pabbi hefur aldrei unnið hjá neinum öðrum en sjálfum sér,“ segir Tryggvi en sagan hófst árið 1975 þegar Benni, þá aðeins 17 ára gamall, stofnaði fyrirtækið í bílskúr.

„Hann var bara krakki þegar hann stofnaði fyrirtækið – með ástríðu fyrir vélum, skellinöðrum og mótorhjólum. Hann byrjaði á því að gera við mótorhjól fyrir vini sína og fór svo að selja þá þjónustu.“ 

Það leið þó ekki á löngu þar til bílarnir fóru að kitla áhugann og með árunum þróaðist áhugamálið og ástríðan yfir í alvöru atvinnurekstur sem segja á að hafi sett sinn svip á bílamenningu landsins.

Kappaksturinn sem mótaði framtíðina

1976 - Benni tekur þátt í sinni fyrstu torfærukeppni

Það má einnig segja að fyrirtækið hafi orðið til út frá kappakstri en Benni keppti af krafti í torfæru, kvartmílu og sandspyrnu og varð margfaldur Íslandsmeistari. 

Með hugsunina um að gera allt eins vel og mögulegt var, varð nafn hans fljótt þekkt – og það sama átti við fyrirtækið. „Upphaflega hét fyrirtækið Vagnhjólið og var á Vagnhöfða, en fljótlega fóru menn að segja: „Förum til Benna“ þegar þurfti að kaupa varahluti og annað og nafnið breyttist í Bílabúð Benna,“ útskýrir Tryggvi. „Keppnisskapið hefur alltaf verið okkar leiðarljós. Við gerum allt af ástríðu – hvort sem það eru bílar, viðgerðir eða þjónusta.“

Starfsmenn verslunar Bílabúðar benna árið 1987.
Benni afhendir Sigurgeiri Sigurðssyni, þáverandi bæjarstjóra á Seltjarnarnesi, fyrstu Musso bifreiðina árið 1996.

Frumkvöðlar í breytingum á jeppum

Benni var einnig fyrstur til að sérhæfa sig í breytingum á jeppum á Íslandi. Þetta vakti athygli – meðal annars hjá bandaríska hernum, sem fékk fyrirtækið til að breyta bílum fyrir herinn og björgunarsveitir hans.

„Þetta voru stórir amerískir trukkar sem stóðust þó ekki íslenskar aðstæður, snjó og veður,“ útskýrir Tryggvi. „Benni sá tækifæri í að hækka og breyta og útbúa bílana fyrir raunverulegar aðstæður – og úr varð gróskumikill rekstur.“

Ævintýraleg ferð á hæsta tind landsins

1991 - Bílabúð Benna fer fyrir leiðangri til að koma jeppa á topp Hvannadalshnjúk.

Hápunktur þessarar vegferðar í jeppabreytingum var þegar Bílabúð Benna stóð fyrir bílaleiðangri á Hvannadalshnjúk.

„Bílarnir þá voru ekki eins tæknilegir né öflugir eins og í dag og því var það stórkostlegt afrek á þessum tíma að komast á þennan tind. Þetta ævintýri var gert í samstarfi við erlend bílatímarit og erlenda birgja og þegar einn þeirra sá tindinn hélt hann að verið væri að draga hann á asnaeyrunun og öskraði hann á Benna „þú ert aldrei að fara þarna upp,“ en Benni er ekki þannig og auðvitað fór hann upp. Atgeirar voru reknir ofan í snjóinn og bílarnir drógu sig upp með eigin vélarafli,“ rifjar Tryggvi upp. 

Ómar Ragnarsson fjallaði um afrekið og erlendir blaðamenn fylgdust með. „Þýskur blaðamaður lýsti því í grein að Íslendingarnir hefðu hagað sér eins og vitleysingar, leikið sér í brekkunum og spólað en um leið og veðrið versnaði breyttust þeir í berserki og tóku til hendinni – og það lýsir okkur Íslendingum vel held ég.“

Porsche á Íslandi og nýtt framtíðarskref

1999 - Bílabúð Benna fær umboðið fyrir Porsche og opnar Porsche verslun í kringlunni.

Fyrirtækið hefur verið umboðsaðili Porsche á Íslandi í 25 ár og stendur nú á nýjum tímamótum. „Við erum að byggja nýjar og glæsilegar höfuðstöðvar þar sem við sameinum sölusvið, þjónustu og skrifstofur á einum stað – og byggjum samkvæmt ströngum stöðlum Porsche.“

Tryggvi segir að nýju höfuðstöðvarnar verði hluti af nýju hugtaki sem kallast Destination Porsche. „Þetta er ekki bara bílaumboð – heldur áfangastaður. Fólk getur komið, fengið sér kaffi og skoðað bílana sem eru eins og listaverk. Við gerum þetta, eins og alltaf, eitt skref í einu – með fókus á gæði og trausta uppbyggingu,“ segir Tryggvi.

Afmælishátíð Bílabúðar Benna fer fram laugardaginn 25. maí frá kl. 12–16 að Krókhálsi 9. Öll velkomin.

Ungur drengur í kassabíl sem Bílabúð Benna færði Fjölskyldugarðinum að gjöf árið 1994.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×