Viðskipti innlent

Þór­dís til dóms­málaráðu­neytisins

Atli Ísleifsson skrifar
Þórdís Valsdóttir hefur starfað hjá Sýn í um tíu ár.
Þórdís Valsdóttir hefur starfað hjá Sýn í um tíu ár. Vísir/Vilhelm

Þórdís Valsdóttir, útvarpsstjóri hjá Sýn, hefur verið ráðin upplýsingafulltrúi dómsmálaráðuneytisins til eins árs.

Þórdís hefur starfað hjá Sýn í samanlögð tíu ár og hefur gegnt ýmsum störfum. Hún hóf fjölmiðlaferil sinn á Fréttablaðinu árið 2016, starfaði síðar á Vísi og var einn þáttastjórnenda Reykjavík síðdegis á Bylgjunni frá 2019 þar til hún tók við stöðu útvarpsstjóra um mitt ár 2023.

Starfslok verða ákveðin í samvinnu við Kristjönu Thors Brynjólfsdóttir, framkvæmdastjóra miðla, en það liggur ekki fyrir að svo stöddu hvenær vistaskiptin verða.

„Það er ljúfsárt að kveðja Sýn því útvarpið hefur átt hug minn allan undanfarin ár og það er erfitt að kveðja góða vinnufélaga,“ segir Þórdís.

„Á síðustu tveimur árum hefur hlustun á Bylgjuna aukist jafnt og þétt og útvarpsstöðin mælist trekk í trekk vinsælasta útvarpsstöð landsins þökk sé samhentu átaki allra. Í útvarpinu starfar metnaðarfullt fagfólk með gríðarlega þekkingu og reynslu og ég hlakka til að fylgjast með því í fjarska. Að því sögðu eru þetta spennandi kaflaskil og ég er full tilhlökkunar að takast á við ný verkefni. Ég er menntaður lögfræðingur og vona að sú menntun og reynsla mín í fjölmiðlum nýtist vel í þeim málaflokkum sem heyra undir dómsmálaráðuneytið,“ segir Þórdís.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×