Upp­gjörið: Tinda­stóll - Álfta­nes 105-104 | Lygi­legar lokamínútur

Siggeir Ævarsson skrifar
Agravanis bræður berjast í gegnum teiginn í síðasta leik liðanna
Agravanis bræður berjast í gegnum teiginn í síðasta leik liðanna Vísir/Anton Brink

Það var pressa á báðum liðum í kvöld þegar Tindastóll tók á móti Álftanesi í þriðja leik liðanna í undanúrslitum Bónus-deildar karla. Stólarnir þurftu að verja sinn heimavöll og gestirnir verða að sækja í það minnsta einn sigur norður en staðan í einvíginu var 1-1 fyrir leikinn í kvöld.

Leikurinn fór afskaplega hægt af stað en góður lokasprettur hjá Stólunum þýddi að liðið leiddi með sjö stigum eftir fyrsta leikhluta, 28-21. Davis Geks tryggði það með flautukörfu en hinn nýbakaði faðir, Sigtryggur Arnar Björnsson, var sjóðheitur í fyrsta leikhluta og var kominn með ellefu stig.

Fyrri hálfleikurinn í heild var nokkuð jafn og verður að gefa gestunum kredit fyrir að hleypa Stólunum ekki of langt fram úr. Í hvert sinn sem þeir gerðu sig líklega til að hlaupa af stað komu Álftnesingar til baka og staðan í hálfleik 49-46 þar sem Stólarnir skoruðu aftur flautukörfu.

Gestirnir voru seinir í gang í seinni hálfleik og skoruðu lítið utan af velli og aðeins 14 stig í þriðja leikhlutanum. Stólarnir virtust nokkurn veginn vera með leikinn í hendi sér þegar leið á seinni hálfleikinn og leiddu með ellefu stigum þegar um þrjár mínútur voru eftir.

Álftnesingar voru þó ekki af baki dottnir og við tóku ótrúlegar lokamínútur þar sem Justin James skoraði sex stig á örfáum sekúndum og kom leiknum í framlengingu, 89-89.

Þar skiptust liðin svo á að skora en Stólarnir voru örlítið sterkari á svellinu þegar á reyndi. Arnar Björnsson skoraði ótrúlega körfu og Dedrick Basile stal bolta á lykilaugnabliki. Álftnesingar voru líka komnir í mikil villuvandræði undir lokin.

Stólarnir höfðu að lokum 105-104 sigur en Davis Geks skoraði fjögur síðustu stig liðsins af vítalínunni.

Atvik leiksins

Hér er úr miklu að velja! Justin James var næstum búinn að henda tapa leiknum með ömurlegri sendingu undir lokin, en skoraði svo sex stig á nokkrum sekúndum og kom leiknum í framlengingu.

Svo þessi karfa frá Arnari undir lokin. Upp úr engu, þristur sem steinlá og villa að auki. Ótrúlegar senur í þessum leik í kvöld undir lokin.

Stjörnur og skúrkar

Dedrick Basile var frábær hjá Stólunum í kvöld, 25 stig, sjö stoðsendingar og tveir stolnir boltar, þar af annar á lykilstundu. Arnar Björnsson einnig frábær og með eina af stærstu körfum leiksins þegar á reyndi. 23 stig frá honum í kvöld.

Haukur Helgi Pálsson virkilega öflugur í liði Álftnesinga í kvöld með 28 stig og ellefu fráköst. Justin James byrjaði leikinn frábærlega, datt svo niður en kláraði með stæl, 20 stig og ellefu stoðsendingar frá honum.

Dómararnir

Sigmundur Már Herbertsson, Bjarni Hlíðkvist Kristmarsson og Jón Þór Eyþórsson fengu alvöru verkefni í hendurnar í kvöld og komust bara þokkalega frá því.

Stemming og umgjörð

Þetta var undanúrslitaleikur í Síkinu, auðvitað var allt upp á tíu. Ekki við neinu öðru að búast. Rosaleg læti í húsinu í kvöld.

Viðtöl

Benedikt Guðmundsson: „Við þurfum að vera sterkari á svellinu á svona stundum“

Benedikt Guðmundsson er þjálfari TindastólsVísir/Anton Brink

Benedikt Guðmundsson, þjálfari Tindastóls, var spurður í leikslok hvernig hans mönnum tókst eiginlega að lifa af í lokin.

„Þetta var náttúrulega bara rosalegur leikur, held að það geti allir verið sammála um það. Við áttum bara að klára þetta í venjulegum leiktíma. Við vorum með þetta en svo léleg vítanýting og þeir svara með þristi í hvert skipti. En ánægður með styrkinn í framlengingunni, sérstaklega þegar við vorum komnir tveimur undir. Sigtryggur Arnar náttúrulega, hvað getur maður sagt?“

Já hvað getur maður eiginlega sagt?

„Bara það að hann hafi spilað, var að eignast sitt annað barn, sýnir hvað hann er mikill Tindastólsmaður. Svo á hann þennan stórleik, hann er náttúrulega búinn að vera geggjaður í síðustu tveimur leikjum. Það er gott að hafa hann með sér í liði.“

Benni var ekki tilbúinn að greina hvað klikkaði undir lokin, en sagði ljóst að þeir þyrftu að gera betur.

„Ég þarf bara að greina það, ég vil ekki vera með einhverjar yfirlýsingar um það núna. Við þurfum bara að skoða þetta, við eigum bara að klára þetta. Við þurfum að vera sterkari á svellinu á svona stundum.“

Hann gat þó skýrt af hverju það braut enginn á Justin James þegar hann jafnaði leikinn, það voru lætin í húsinu!

„Það náttúrulega heyrir enginn í manni þegar maður er að garga að þeir eigi að brjóta. Við verðum að vera klárari og lesa aðeins inn á vellinum. Það heyrist ekkert þegar maður er að reyna að kalla. En leikmennirnir skiluðu þessu í hús, sem betur fer.“

Kjartan Atli: „Höfðum engu að tapa og létum bara vaða“

Kjartan Atli með leiðbeiningar til sinna manna. Aðstoðarþjálfarinn Hjalti Þór Vilhjálmsson fylgist með fyrir aftan.Vísir/Anton Brink

Kjartan Atli Kjartansson, þjálfari Álftaness, var spurður strax eftir leik hvað sæti mest í honum og það stóð á svörum.

„Ég veit það ekki, það er góð spurning! Við vorum nálægt þessu, það er kannski það sem maður hugsar um núna. Svo bara höldum við áfram.“

Hann var einnig spurður út í hvað kom þeim aftur inn í leikinn eftir að hafa verið þrettán stigum undir þegar leikurinn var að klárast.

„Tími er rosalega áhugaverður faktor í huga íþróttamanna. Á ensku er það kallað „urgency“, meira „urgency“ og þá svona breytast leikirnir stundum. Það var bara það sem gerðist fannst mér. Við stigum bara á bensínsgjöfina, höfðum engu að tapa og létum bara vaða.“

Kjartan gerði nokkrar athugasemdir við dómana í kvöld en var ósáttur við eitt og annað í framkvæmdinni við að fá að mótmæla dómum formlega.

„Stundum eru þeir að fá áskorun og stundum ekki. Þetta er bara nákvæmlega sama, ekki líkt, bara sama atriði og núna fóru þeir í skjáinn en ekki í síðasta leik. Ég held að allir í íslenskum körfubolta, þjálfarar, leikmenn, stjórnarfólk, stuðningsfólk. Allir vilja að þetta sé lagað, að það sé einhver lína í þessu. Ég myndi varpa því kannski út í kosmósið.“

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira