Körfubolti

NBA viður­kennir dómaramistök á ögur­stundu hjá Luka og Lakers

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Luka Doncic skoraði 38 stig í fjórða leik Los Angeles Lakers og Minnesota Timberwolves.
Luka Doncic skoraði 38 stig í fjórða leik Los Angeles Lakers og Minnesota Timberwolves. getty/Robert Gauthier

Dómurum leiks Los Angeles Lakers og Minnesota Timberwolves varð á í messunni undir lok leiks liðanna þegar Luka Doncic fékk ekki villu er Jaden McDaniels braut á honum.

Þegar 33 sekúndur voru eftir af leiknum á sunnudaginn virtist McDaniels fella Doncic á vallarhelmingi Lakers. Ekkert var dæmt en Lakers tók leikhlé til að forðast að boltinn yrði dæmdur af þeim fyrir að koma honum ekki yfir miðju á tilskildum tíma.

Eftir leikhléið tapaði LeBron James boltanum. Hann braut svo á Anthony Edwards sem setti niður tvö vítaskot og kom Minnesota í 116-113 sem urðu lokatölur leiksins.

Í skýrslu sinni eftir leikinn, sem var birt í gær, viðurkenndi NBA að dómararnir hefðu átt að dæma villu á McDaniels er hann braut á Doncic. NBA birtir slíkar skýrslur daginn eftir leiki þar sem munurinn á liðunum er þrjú stig eða minna á síðustu tveimur mínútunum eða í framlengingu.

NBA viðurkenndi einnig dómaramistök undir lok leiks Detroit Pistons og New York Knicks á sunnudaginn. Dómarar leiksins hefðu átt að dæma villu á Josh Hart þegar hann braut á Tim Hardaway yngri í þriggja stiga skoti. Knicks vann leikinn, 94-93, og leiðir einvígið, 3-1.

Minnesota er einnig 3-1 yfir í einvíginu gegn Lakers og getur tryggt sér sæti í undanúrslitum Vesturdeildarinnar með sigri í fimmta leik liðanna aðfaranótt fimmtudags.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×