Innlent

Munu tryggja að­gengi að kaffi­stofunni sem er nú bæna­hús

Árni Sæberg skrifar
Leigubílaröðin við Leifsstöð hefur valdið talsverðum deilum undanfarið.
Leigubílaröðin við Leifsstöð hefur valdið talsverðum deilum undanfarið. Vísir/Vilhelm

Isavia ætlar að tryggja aðgengi allra leigubílstjóra að skúr sem ætlaður er sem kaffistofa þeirra sem nota leigubílastæðið við Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Skúrinn er nú sagður notaður sem bænahús og lokaður öðrum en þeim sem hann nota sem slíkt.

Margir ráku upp stór augu í gærkvöldi þegar leigubílstjóri sagði í viðtali í kvöldfréttum Ríkisútvarpsins að kaffistofa leigubílstjóra væri nú notuð sem bænahús af erlendum leigubílstjórum. Íslenskum leigubílstjórum væri meinaður aðgangur að skúrnum og þeir kæmust ekki einu sinni á salernið þar.

Hér má sjá skúrinn umdeilda.Vísir/Já.is

Þá sást í fréttinni hvernig maður bað bænir að sið múslima inni í skúrnum og annar maður meinaði fréttamanni inngöngu í skúrinn á grundvelli þess að hann væri í einkaeigu.

„Ég bara kemst ekki yfir þetta!“

Talsverð umræða hefur verið á samfélagsmiðlum eftir fréttina og meðal þeirra sem tekið hafa til máls um það er Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, þingmaður og formaður Miðflokksins. „Ég bara kemst ekki yfir þetta!“ sagði hann í færslu á samfélagsmiðlinum X.

„Svo máttu ekki eini sinni fara inn í kaffiskúrinn þinn til að pissa af því að hofmóðugt ríkisfyrirtæki er búið að breyta honum í bænahús fyrir þá sem tóku af þér vinnuna,“ segir hann.

Eigi að vera opinn öllum

„Þarna er um að ræða skúr í eigu Isavia sem var og er hugsaður fyrir alla leigubílstjóra. Þar sem þeir geta neytt matar og drykkjar og nýtt salerni,“ segir Guðjón Helgason, upplýsingafulltrúi Isavia, í samtali við Vísi.

Guðjón Helgason hjá Isavia segir skúrinn eiga að vera öllum leigubílstjórum opinn.Vísir/Arnar

Hann ítrekar að skúrinn sé ætlaður öllum leigubílstjórum sem hafa aðgang að leigubílastæðinu við Flugstöð Leifs Eiríkssonar. „Við munum fylgjast með því.“


Tengdar fréttir

Ósáttur við aukna gjald­töku við flug­völlinn fyrir leigu­bíl­stjóra

Isavia stefnir að því að hækka gjaldtöku fyrir leigubílstjóra sem stöðva við flugstöðina til að sækja farþega. Hækka á gjaldið til að geta ráðið starfsmenn til að sinna gæslu við leigubílastöðina og aðstoða farþega við að finna sér leigubíl. Öryggisgæsla við leigubílasvæðið hefst 1. maí á háannatíma en hærri gjaldtaka síðar. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×