„Brostnar væntingar“ fjárfesta en áhættustig Alvotech samhliða lækkað mikið

Mikið verðfall á hlutabréfum Alvotech eftir uppfærða afkomuspá endurspeglaði brostnar væntingar fjárfesta, sem um leið losaði út talsvert af skuldsettum stöðum, en þrátt fyrir tímabundnar hraðahindranir undirstrika greinendur að félagið sé á allt öðrum stað en áður og efnahagsreikningurinn orðinn mun „heilbrigðari“. Ný og betri upplýsingagjöf er sögð geta leitt til „þroskaðri umræðu og væntinga“ um Alvotech en markaðsviðskipti Íslandsbanka nefna að ef félagið nær um 350 milljóna dala rekstrarhagnaði á næstu tveimur árum, nokkuð undir útgefinni áætlun, ætti það að skila sér í virkilega góðri ávöxtun.
Tengdar fréttir

Alvotech í mótvindi þegar eftirspurn innlendra fjárfesta mettaðist
Gæfan hefur snúist hratt gegn hlutabréfafjárfestum í Alvotech sem hafa séð bréfin lækka um þriðjung eftir að félagið náði hinum langþráða áfanga að fá markaðsleyfi í Bandaríkjunum. Enn er beðið eftir að fyrirtækið ljúki stórum sölusamningum vestanhafs og væntingar um innkomu nýrra erlendra fjárfesta á kaupendahliðina hafa ekki gengið eftir. Skarpt verðfall síðustu viðskiptadaga framkallaði veðköll á skuldsetta fjárfesta en á sama tíma og búið er að þurrka út stóran hluta af hækkun ársins hafa erlendir greinendur tekið vel í uppfærða afkomuáætlun Alvotech og hækkað verðmöt sín á félagið.

„Nokkuð snúið“ að fá inn erlenda sjóði meðan hlutabréfaveltan er jafn lítil
Góður gangur í sölu á hliðstæðu Alvotech við lyfið Humira í Bandaríkjamarkað þýðir að pantanabókin er orðin nokkuð meiri en þeir milljón skammtar sem upplýst var um fyrir fáeinum vikum, að sögn forstjóra félagsins, sem segir árið búið að „teiknast býsna vel upp.“ Í viðtali við Innherja ræðir Róbert Wessman um litla veltu með bréf félagsins í Bandaríkjunum, sem hefur skapað tæknilegar hindranir fyrir innkomu erlendra sjóða, en telur að sú staða geti snúist hratt við. Hann útilokar að Alvotech sé að fara sækja sér meira fé í reksturinn og undirstrikar að fjármögnun félagsins sé „lokið.“