Upp­gjörið: Álfta­nes - Tinda­stóll 94-82 | Ein­vígið jafnt eftir mikinn hasar

Smári Jökull Jónsson skrifar
Það var hart barist.
Það var hart barist. Vísir/Anton Brink

Álftanes jafnaði metin í undanúrslitum Bónus deildar karla körfubolta í kvöld eftir rosalegan leik gegn Tindastóli þar sem úrslitin réðust ekki fyrr en á lokasekúndu leiksins. Staðan í einvíginu 1-1 en næsti leikur liðanna fer fram á Sauðárkróki.

Kaldalónshöllin á Álftanesi var orðin þéttsetin löngu áður en leikurinn hófst og líklega aldrei verið fleiri áhorfendur á íþróttaviðburði á Álftanesi.

Stemmningin á Álftanesi í kvöld var frábær.Vísir/Anton Brink

Stærstu fréttirnar fyrir leikinn voru hins vegar þær að David Okeke var mættur til leiks hjá heimaliðinu eftir meiðsli. Hann byrjaði ekki leikinn en kom inn af miklum krafti og skoraði 14 stig í fyrri hálfleiknum. Annars voru það Stólarnir sem byrjuðu betur með Sigtrygg Arnar Björnsson fremstan í flokki en hann skoraði 15 stig í fyrsta leikhluta. 

Sigtryggur Arnar Björnsson skoraði 15 stig í fyrsta leikhluta.Vísir/Anton Brink

Gestirnir urðu hins vegar fyrir áfalli því lykilmaðurinn Sadio Doucoure fékk fjórar villur á fyrstu sex mínútum leiksins og dvaldi á bekknum löngum stundum eftir það. Staðan eftir fyrsta leikhluta var 28-28 en í öðrum leikhluta stigu Álftnesingar á bensíngjöfina og náðu mest níu stiga forskoti. Justin James fór á kostum og þá réðu Stólarnir illa við áðurnefndan Okeke. Staðan í hálfleik var 54-48 heimamönnum í vil.

Sadio Doucoure fékk fjórar villur í fyrsta leikhluta í kvöld.Vísir/Anton Brink

Í síðari hálfleik hélt sama baráttan áfram. Álftnesingar leiddu með sjö stigum eftir þriðja leikhlutann en í þeim fjórða náðu Stólarnir vopnum sínum og Dimitrios Agravanis kom gestunum yfir með þriggja stiga skot í stöðunni 81-78 þegar tæpar fjórar mínútur voru eftir.

En heimamenn svöruðu alltaf. Dimitrios Klonaras setti afar stóran þrist niður þegar skammt var eftir og víti frá Justin James, sem átti frábæran leik, og Hauki Helga Pálssyni komu stöðunni í 92-86 með aðeins 31 sekúndu á klukkunni. 

Justin James sækir á körfuna.Vísir/Anton Brink

En leikmenn Tindastóls voru ekki af baki dottnir. Giannis Agrovanis setti niður þriggja stiga skot og víti að auki örskömmu síðar og kom muninum niður í tvö stig og eftir það fengu Stólarnir lokasóknina til að jafna eða komast yfir en náðu ekki almennilegu skoti á körfuna. Álftnesingar fögnuðu gríðarlega þegar lokaflautan gall, lokatölur í leiknum 94-92 og staðan í einvíginu orðin jöfn.

Atvik leiksins

Vítaskotin fimm sem Álftanes setti á lokasekúndunum voru risastór. Vítanýtingin hafði verið léleg hjá heimamönnum fram að því en Justin James og Haukur Helgi Pálsson settu fimm víti í röð sem sigldu sigrinum í höfn.

Kjartan Atli ræðir við Gunnlaug Briem dómara.Vísir/Anton Brink

Þá má minnast á tæknivilluna sem Sadio Doucoure fékk í fyrsta leikhluta, það var hans fjórða villa sem varð til þess að hann þurfti að sitja á bekknum lengi eftir það. 

Stjörnur og skúrkar

Justin James átti virkilega góðan leik fyrir Álftnesinga, skoraði 29 stig, tók 8 fráköst og gaf 6 stoðsendingar. Innkoma David Okeke breytti miklu og hann átti fínan leik og þá steig Dimitrios Klonaras heldur betur upp undir lokin og lauk leik með 14 stig. Haukur Helgi Pálsson og Dúi Þór Jónsson komu einnig með mikilvægt framlag.

Dúi Þór Jónsson fagnar með stuðningsmönnum Álftnesinga.Vísir/Anton Brink

Hjá Stólunum virtist Sigtryggur Arnar Björnsson ætla að eiga leik lífsins en hann skoraði 15 stig í fyrsta leikhluta. Eftir það bætti hann hins vegar aðeins við tveimur stigum og þau komu af vítalínunni. Hann sat fulllengi á bekknum í öðrum leikhluta og má setja spurningamerki við þá ákvörðun.

Dimitrios Agravanis í baráttunni gegn Tómasi Þórði Hilmarssyni.Vísir/Anton Brink

Agravanis bræðurnir, Giannis og Dimitrios áttu báðir fínan leik og sá síðarnefndi setti niður þrjú þriggja stiga skot á stuttum tíma í fjórða leikhluta sem virtust ætla að koma Stólunum langleiðina í endamarkið.

Dómararnir

Þetta var erfiður leikur að dæma. Það var stór ákvörðun að gefa Sadio Doucoure tæknivillu í fyrsta leikhluta, það var hans fjórða villa og hann fór á bekkinn. Stólarnir voru mjög ósáttir við þriðju villuna sem Doucoure mótmælti of harkalega en úr blaðamannastúkunni séð virtist hún rétt en Doucoure óheppinn í atvikinu.

Dómaratríóið í kvöld.Vísir/Anton Brink

Dómaratríóið þurfti að taka stórar ákvarðanir, einhverjar þeirra réttar og aðrar rangar eins og gengur og gerist. Þeir dæmdu villu á Tindastól þegar Justin James tók þriggja stiga skot undir lokin, mjög stór ákvörðun og ég set spurningamerki við hvort hún hafi verið rétt. James setti vítin þrjú niður og munurinn fór þá í fjögur stig sem skipti miklu máli.

Heimamenn létu vel í sér heyra í stúkunni.Vísir/Anton Brink

Svipað atvik átti sér stað skömmu síðar. Þá setti Dimitrios Agravanis niður þriggja stiga skot og var brotið á honum í leiðinni. Brotið virtist hins vegar eiga sér stað áður en hann tók upp boltann og því hefði karfan ekki átt að standa.

Stemmning og umgjörð

Þvílík og önnur eins veisla á Álftanesi í kvöld! Meira en hálftíma fyrir leik var fólk beðið um að þjappa sér saman í stúkunni, slíkur var fjöldinn. 

Stuðningsmenn Tindastóls voru fjölmennir að vanda.Vísir/Anton Brink

Húsið var troðfullt og stuðningsmenn beggja liða frábærir. Umgjörð Álftnesinga var mjög góð og komnir pallar fyrir aftan báðar körfurnar sem þýddi að það voru áhorfendur hringinn í kringum völlinn. 

Viðtöl

„Það kom mikið út úr miðherjastöðunni í kvöld.“

Kjartan Atli Kjartansson var gríðarlega ánægður með sigur Álftnesinga í kvöld og sagðist ekki hafa þurft að hafa áhyggjur af sínu liði á stórum augnablikum í leiknum.

„Það er mikil reynsla í hópnum þannig að maður þarf ekki að hafa miklar áhyggjur af þeim. En þetta voru rosalega stór högg sitt á hvað. Þetta snerist um hvort við myndum ná einhverjum smá kafla í lokin og það gerðist þegar við komum sex stigum yfir,“ sagði Kjartan Atli í viðtali eftir leikinn í kvöld.

Kjartan Atli Kjartansson var líflegur á hliðarlínunni.Vísir/Anton

David Okeke lék með Álftnesingum á ný í kvöld eftir að hafa misst af tveimur síðustu leikjum vegna meiðsla.

„Hann var allavega nægilega klár til að spila mjög vel í þessum leik. Í úrslitakeppni ertu alltaf í kappi við tímann, alltaf að sjá hvar menn eru staddir. Í gær grunaði okkur að hann gæti verið með en það kom staðfesting í dag að hann gæti hitað upp og farið af fullum krafti í hana.“

„Svo kom Tommi [Tómas Þórður Hilmarsson] frábærlega inn. Við gerðum þá breytingu að setja hann inn í byrjunarliðið, það er mikil reynsla hjá honum og hann gerði frábærlega. Það kom mikið út úr miðherjastöðunni í kvöld.“

Kjartan Atli sagði Okeke hjálpa mikið varnarlega og þá tók hann sjö sóknarfráköst í leiknum sem voru mikilvæg fyrir Álftnesinga.

„Hann er rosalega stór og hreyfanlegur, einn af þeim sem bindur vörnina saman í baklínunni og er frábær varnarmaður. Síðasti leikur, við vissum að það væri mjög langt frá því sem við erum. Það voru ekki við. Þegar við horfðum við á það sáum við það og það voru allir sammála, þetta var ekki það sem við viljum standa fyrir. Það var líka miklu meiri ákefð í vörninni heilt yfir.“

Kjartan Atli Kjartansson segir sína skoðun.Vísir/Anton

Kjartan sagði tilhlökkun fyrir þriðja leiknum á Sauðárkróki og virtist vera mjög spenntur fyrir ferðinni norður.

„Það er mikil tilhlökkun og við förum bara aftur á okkar uppáhaldsstað í Glaðheimum á Blönduósi sem er orðinn okkar „home away from home“ ef við slettum. Við förum þangað og njótum lífsins við ósa Blöndu og sogum í okkur orkuna úr umhverfinu þar.“

„Nú er bara verið að hugsa að koma öllum í stand, Valdimar sjúkraþjálfari fer nú á yfirsnúning og við Hjalti [Vilhjálmsson aðstoðarþjálfari] að sjá hvað við getum gert betur. Svo bara höldum við áfram.“

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira