Körfubolti

Aldrei selst fleiri miðar á heima­leik hjá Álfta­nesi

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Það verða læti á Álftanesinu í kvöld.
Það verða læti á Álftanesinu í kvöld. vísir/hulda margrét

Það verður mikið um dýrðir í Kaldalóns-höllinni á Álftanesi í kvöld er Tindastóll mætir á svæðið í öðrum leik liðanna í undanúrslitum Bónus-deildar karla.

Það er búist við kjaftfullu húsi og Huginn Freyr Þorsteinsson, formaður körfuknattleiksdeildar Álftaness, staðfestir að aldrei hafi fleiri miðar selst á leik hjá félaginu í sögunni. Fjöldi sjálfboðaliða á svæðinu verður sömuleiðis meiri en nokkru sinni áður.

Leikurinn hefst 19.15 en stemningin á svæðinu hefst klukkan 17.00.

Það verður boðið upp á tónlistaratriði fyrir leik og verða þau í höndum Skagfirðinga. Úlfur Úlfur og Sverrir Bergmann ætla nefnilega að taka lagið.

Staðan í einvíginu er 1-0 fyrir Tindastól og Álftnesingar verða því að svara fyrir sig áður en rimman fer aftur á Sauðárkrók eftir helgi.

Eins og áður segir hefst leikurinn klukkan 19.15 og hann verður í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×