Skoðun

Grafarvogsgremjan

Þorlákur Axel Jónsson skrifar

Í Grafarvogi býr efri millistétt. Þetta segir okkur Davíð Már Sigurðsson stoltur íbúi hverfisins. Ekkert minnist hann á verkalýðsstétt í sömu lýsingu. Þetta vissi ég ekki, hélt að efri millistéttin ætti heima á Seltjarnarnesi og í Garðabæ.

Ég hef lengi velt fyrir mér Grafarvogsgremjunni sem þjóðin verður reglulega vitni að. Ofsafengin reiðiköst á íbúafundum þannig að opinberir starfsmenn verða að fá áfallahjálp að þeim loknum. Íbúafundir þar sem kvótaerfingjarnir láta tilkynna að atvinnulíf byggðarlaga sé lagt í rúst svo þeir geti keypt sér aðeins dýrara hvítvín með humrinum komast ekki í hálfkvisti við fundabræðina í Grafarvogi.

Efri millistéttin kvartar undan snjómokstri. Okkur Norðlendingum finnst merkilegt að snjómokstur skuli vera svona stórt vandamál á götum þar sem auðvelt er að vera á sumardekkjum allt árið. Með þeim orðum er ekki verið að hundsa vanda Grafarvogsbúa, en það þarf að læra að aka í snjó og til þess þarf snjóavetur og því er ekki hægt að stjórna. Öllum þykir okkur vænt um íbúa Grafarvogs og viljum að þau séu með okkur hinum í samfélagi. Efri millistéttin í Grafarvogi óttast að umferðarstíflan á þorpsgötunni nái alla leið til þeirra sjálfra og þurfi að taka strætó. Það segir sig sjálft, fólk í efri millistétt tekur ekki strætó.

Verst af öllu er þó eitthvert tal um að byggja blokkir. Blokkir! Í slíku húsnæði er mögulegt að búi verkafólk. Þá er spillt hinni góðu stéttablöndu sem hinn stolti Davíð Már Sigurðsson segir okkur frá. Þarna gæti sest að eitthvert fólk sem á börn sem þurfa að ganga í skóla. Hvað þá?

Ég vil þakka nefndum manni úr Grafarvogi fyrir að hjálpa okkur hinum að skilja gremjuna sem virðist landlæg í voginum góða. Um sé að ræða ótta efri millistéttarinnar við að spillast af fólki með lægri stöðu í þjóðfélaginu. Grafarvogsgremjan er þá eftir allt saman stéttahroki.

Höfundur er kennari á Akureyri.




Skoðun

Sjá meira


×