Upp­gjörið: Stjarnan - ÍA 2-1 | Tveir sigrar í röð hjá Stjörnumönnum

Hinrik Wöhler skrifar
Guðmundur Baldvin Nökkvason skoraði annað mark Stjörnunnar.
Guðmundur Baldvin Nökkvason skoraði annað mark Stjörnunnar. vísir/Diego

Stjörnumenn sigruðu Skagamenn í miklum baráttuleik í Garðabænum í kvöld. Mikið jafnræði var með liðunum allan leikinn en heimamenn höfðu betur að lokum, 2-1, og hafa nú unnið báða sína leiki í Bestu-deild karla.

Leikurinn fór rólega af stað og skiptust liðin á að halda boltanum. Kröftug norðan gola blés í Garðabænum og léku Skagamenn gegn vindi í fyrri hálfleik. Skagamenn fengu nokkur hálffæri um miðbik fyrri hálfleiks en náðu ekki að gera sér mat úr þeim.

Það voru hins vegar heimamenn sem brutu ísinn á 25. mínútu eftir hornspyrnu. Benedikt Warén tók hornspyrnuna sem rataði á kollinn á Guðmundi Baldvin Nökkvasyni, og Andri Rúnar Bjarnason á fjærstönginni átti ekki í neinum vandræðum með að koma boltanum í netið.

Allt var með kyrrum kjörum þangað til að Skagamenn jöfnuðu á 42. mínútu. Haukur Andri Haraldsson fékk pláss vinstra megin í teignum og gaf lága sendingu fyrir. Þar var Steinar Þorsteinsson mættur og náði hann að reka tána í boltann og stýrði honum snyrtilega í bláhornið, stöngin inn.

Haukur Andri Haraldsson gaf stoðsendingu en lét einnig reka sig af velli undir lok leiks.Vísir/Viktor Freyr

Staðan var því 1-1 þegar Jóhann Ingi Jónsson, dómari leiksins, blés til loka fyrri hálfleiks.

Seinni hálfleikur fór fjörlega af stað og var meiri hraði samanborið við fyrri hálfleik.

Stjörnumenn þurftu ekki að bíða lengi eftir marki því á 52. mínútu kom Guðmundur Baldvin Nökkvason heimamönnum yfir. Andri Rúnar Bjarnason fékk boltann skammt frá D-boganum og lyfti honum laglega inn fyrir á Guðmund Baldvin, sem kláraði færið vel yfir Árna Marinó Einarsson í marki ÍA.

Viktor Jónsson fékk frábært færi tíu mínútum síðar eftir góðan undirbúning hjá Jóni Gísla Eyland, en framherjinn skaut boltann hátt yfir markið.

Skagamenn pressuðu stíft undir lok leiks en þeim tókst þó ekki að finna leið fram hjá fyrrum leikmanni ÍA, Árna Snæ Ólafssyni, í marki Stjörnunnar. Heimamenn gátu því leyft sér að fagna í leikslok og sitja á toppi deildarinnar ásamt Víkingum eftir tvær umferðir.

Atvik leiksins

Eitt mark skildi liðin að í kvöld og það var sigurmark Stjörnunnar á 52. mínútu sem tryggði Garðbæingum stigin þrjú.

Stjörnur og skúrkar

Andri Rúnar Bjarnason byrjar tímabilið af krafti en hann kom Stjörnumönnum á bragðið með skalla á 25. mínútu og átti síðan stóran hlut í öðru markinu þegar hann gaf hnitmiðaða sendingu á Guðmund Baldvin.

Sömuleiðis átti Guðmundur Baldvin Nökkvason stóran þátt í sigri Stjörnunnar í kvöld. Hann tengdi vel við Andra Rúnar, en eftir að hafa flikkað boltanum úr horni á hann í fyrri hálfleik fékk hann greiðan endurgoldinn í þeim seinni, þegar Andri Rúnar lagði boltann snyrtilega inn fyrir og Guðmundur Baldvin skoraði sigurmarkið.

Haukur Andri Haraldsson var sprækastur í liði Skagamanna framan af leik og átti góðan sprett og stoðsendingu í eina marki ÍA í kvöld. Hann fékk þó tvö óþarfa gul spjöld og þar með rautt. Hann verður því ekki með ÍA í næsta deildarleik.

Dómarar

Jóhann Ingi Jónsson dæmdi leikinn á Samsung-vellinum og framan af hafði hann lítið að gera. Þegar leið á leikinn fór hann þó að draga upp gul spjöld, flest þeirra verðskulduð.

Jón Þór Hauksson, þjálfari ÍA, setti spurningarmerki við seinna gula spjald Hauks Andra, þegar hann braut á leikmanni Stjörnunnar á miðjum velli. Jóhann Ingi stóðst þó prófið og hélt leikmönnum við efnið undir lok leiks þegar meiri hiti færðist í leikinn.

Stemning og umgjörð

Það blés kröftulega í Garðabænum en það stoppaði þó ekki vaska stuðningsmenn, því tæplega þúsund manns mættu á völlinn í kvöld. Það var þétt setið hjá heimamönnum og heyrðist vel í Silfurskeiðinni.

Það var glatt á hjalla hjá þeim bláklæddu í leikslok og var góður andi yfir Garðabænum á þessu napra vorkvöldi.

Viðtöl

Andri Rúnar: „Þeir hafa tekið mér rosalega vel“

Andri Rúnar hefur skorað í báðum deildarleikjum Stjörnunnar á tímabilinu.

Andri Rúnar Bjarnason, framherji Stjörnunnar, skoraði og lagði upp í sigri Stjörnunnar á móti ÍA í Garðabæ í kvöld. Hann segir sigurinn hafa verið sanngjarnan.

„Þessir litlu hlutir féllu með okkur núna, þeir fengu eitt færi í lokin til að jafna en þeim tókst ekki að nýta það. Ekki það, við fengum svo sem færi til að skora meira en heilt yfir fannst mér við betri og verðskulduðum þrjú stig,“ sagði Andri eftir leik.

Skagamenn höfðu vindinn í bakið í seinni hálfleik en náðu ekki að nýta sér það. Leikurinn tók við sér í síðari hálfleik eftir rólegan fyrri hálfleik og komu Skagamenn framar á völlinn samkvæmt Andra.

„Þeir koma framar á völlinn og voru með vindinn í bakið. Þá fannst mér þeir þora að stíga aðeins ofar og það opnaðist meira svæði fyrir okkur að spila í, heilt yfir frekar sáttur með leikinn hjá okkur,“ sagði Andri Rúnar um seinni hálfleikinn í kvöld.

Andri gekk til liðs við Stjörnuna frá Vestra fyrir tímabilið og hefur farið vel af stað, tvö mörk í fyrstu tveimur leikjum. Hann hrósar samherjum sínum og segist gríðarlega sáttur með liðið.

„Bara mjög vel, það er mjög auðvelt að koma inn í svona hóp. Frábærir strákar og karakterar og mjög auðvelt að passa inn. Þeir hafa tekið mér rosalega vel og það hjálpar inn á vellinum.“

Varnarlína ÍA vildi fá Andra Rúnar dæmdan rangstæðan í öðru marki Stjörnunnar, en Andri kom af fjöllum þegar hann var spurður út í atvikið.

„Í marki númer tvö? Ég var alls ekki rangur þar, ég get ekki ímyndað mér það allavega,“ sagði framherjinn að lokum.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira