Í tilkynningu frá Landsbjörg kemur fram að Hjálparsveit skáta í Reykjadal hafi einnig verið kölluð út um klukkan 22 í gær vegna ferðafólks sem lent hafði utan vegar á Fljótsheiðinni austanverðri. Fljótsheiði er leiðin frá Goðafossi, eða Skjálfandafljóti yfir í Reykjadal og liggur um 250 metra yfir sjávarmáli.
Fólkið hafði samkvæmt tilkynningu misst bíl sinn út af veginum á leið niður af heiðinni austanverðri. Þar sem bíllinn hallaði talsvert óttaðist fólkið að hann myndi velta og treysti sér ekki til að vera inn í bílnum. Þar sem veður var ekki gott, nokkuð hvasst, skafrenningur og hitastig undir frostmarki, var áríðandi að koma fólkinu í skjól.
Björgunarsveitin var komin á staðinn um klukkustund síðar, um klukkan 23, og flutti fólkið niður að Laugum í húsnæði sveitarinnar. Bílinn var svo spilaður aftur upp á veg. Fólkið gat svo haldið ferð sinni áfram í nótt.
Fólk lenti einnig í vandræðum á Siglufjarðarvegi á svipuðum tíma og voru aðstoðuð af meðlimum í Björgunarsveitinni Stráka frá Siglufirði. Samkvæmt tilkynningu lauk þeirri aðgerð um klukkan tvö í nótt.