Viðskipti erlent

Hluta­bréfa­verð í Asíu hækkar

Gunnar Reynir Valþórsson og Atli Ísleifsson skrifa
Í Suður-Kóreu voru hækkanir á mörkuðum en aðeins um eitt prósent.
Í Suður-Kóreu voru hækkanir á mörkuðum en aðeins um eitt prósent. AP

Hlutabréfaverð í Asíu hækkaði víðast hvar við opnun í nótt og er búist við því að það sama gerist í Evrópu nú á áttunda tímanum.

Vísitölur fóru upp um rúm tvö prósent í Hong Kong og um tæp tvö prósent í Japan. Í Suður-Kóreu voru einnig hækkanir en aðeins um eitt prósent.

Ástæðan fyrir aukinni bjartsýni á mörkuðum er sögð vera breyting sem Donald Trump Bandaríkjaforseti tilkynnti óvænt um um helgina en hún er sú að raftæki á borð við tölvur og snjallsíma verða undanþegin ofurtollunum sem hann hefur sett á Kína, sem nema nú allt að 145 prósentum.

Howard Lutnick, efnahagsráðgjafi Trumps, var þó fljótur til að gefa út þann fyrirvara að þessi undanþága væri aðeins tímabundin og Trump skrifaði svo á samfélagsmiðla að þessar vörur væru enn með hinn svokallaða Fentanyl-toll á sér, sem nemur tuttugu prósentum, þannig að málið er enn nokkuð óljóst.

Engu að síður virðast markaðir sjá vonarglætu þessum breytingum og því urðu hækkanir, þó þær teljist heldur varfærnar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×