Hamilton var næstum því sekúndu lengur en sá sneggsti, Oscar Piastri, í tímatökunni í gær. Carlos Sainz, sem fór til Williams eftir að Hamilton leysti hann af hjá Ferrari, var einnig sneggri en Hamilton í tímatökunni og verður sá áttundi af stað í dag.
„Ég er bara ekki að standa mig nógu vel, vandamálið er mín megin og ég verð að bæta mig. Bíllinn er augljóslega nógu góður, sem er gott“ heyrðist Hamilton segja í liðsútvarpi Ferrari eftir tímatökuna.
„Þetta er svo sannarlega ekki góð tilfinning. Ég hef engin svör, ég var bara ekki nógu snöggur“ sagði hann svo við blaðamenn.
Hamilton endaði í tíunda sæti í fyrsta kappakstri ársins í Ástralíu, vann síðan sprettinn í Kína og virtist vera á beinu brautinni en var dæmdur úr leik í kappakstrinum sjálfum og endaði svo í sjöunda sæti í Japan síðustu helgi, þrettán sekúndum á eftir liðsfélaga sínum LeClerc.
Fjallað var um tímatökuna í Sportpakka Stöðvar 2 í gærkvöldi og innslagið má sjá hér fyrir ofan.
Barein kappaksturinn verður svo í beinni útsendingu á Vodafone Sport klukkan 14:30.