Gylfi þreytti frumraun sína fyrir Víking þegar liðið tók á móti ÍBV í 1. umferð Bestu deildarinnar í gær. Gylfi var í byrjunarliði Víkinga en lék aðeins tæpan klukkutíma því á 55. mínútu fékk hann beint rautt spjald fyrir brot á Eyjamanninum Bjarka Birni Gunnarssyni.
Þetta er aðeins annað rauða spjaldið sem Gylfi fær á ferlinum og það fyrsta síðan í ársbyrjun 2015.
Hitt rauða spjaldið fékk hann í bikarleik Blackburn Rovers og Swansea City 24. janúar 2015. Gylfi kom Swansea yfir á 21. mínútu í leiknum á Ewood Park en Blackburn svaraði með þremur mörkum.
Í uppbótartíma tæklaði Gylfi Chris Taylor niður á miðjum vellinum og var sendur í sturtu. Brotið má sjá í spilaranum hér fyrir neðan.
Gylfi mátti gera sér að góðu að fylgjast með næstu þremur leikjum Swansea úr stúkunni, á meðan hann tók út leikbann.
Þrátt fyrir að missa Gylfa af velli í gær vann Víkingur ÍBV, 2-0. Daníel Hafsteinsson og Gunnar Vatnhamar skoruðu mörk Víkinga.
Næsti leikur Víkings er gegn bikarmeisturum KA á sunnudaginn. Þar tekur Gylfi út leikbann.