Atvinnulíf

Eins­leitni er ekki málið: „Ætlum við að gera þetta aftur?“

Rakel Sveinsdóttir skrifar
Elísabet Ósk Stefánsdóttir, formaður Vertonet, segir Hvatningadag Vertonet á morgun snúast um hvaða árangri fyrirtæki vilji ná í rekstri sínum og þróun í tækni. Mikil stemning ríkir og er nánast uppselt á viðburðinn. Sem Elísabet segir ómetanlegt með tilliti til þess hvað er að gerast víða í heiminum.
Elísabet Ósk Stefánsdóttir, formaður Vertonet, segir Hvatningadag Vertonet á morgun snúast um hvaða árangri fyrirtæki vilji ná í rekstri sínum og þróun í tækni. Mikil stemning ríkir og er nánast uppselt á viðburðinn. Sem Elísabet segir ómetanlegt með tilliti til þess hvað er að gerast víða í heiminum. Vísir/Vilhelm

Það er heldur betur hressileg stemning fyrir Hvatningardegi Vertonet sem haldinn verður á morgun. Því nú er nánast uppselt á viðburðinn.

Sem verður að teljast fagnaðarefni út af fyrir sig.

„Því það er víða í heiminum að verða mikil afturför. Sem auðvitað hefur áhrif. Ég er nokkuð viss um að mörgum finnist mjög sorglegt að horfa upp á ýmiss grunnréttindi kvenna vera að taka skref aftur á bak,“ segir Elísabet Ósk Stefánsdóttir formaður Vertonet.

Vertonet eru samtök kvenna og kvára í tæknigeiranum. Hvatningardagurinn er stærsti viðburður Vertonet en hann er opinn öllum. Dagskrá Hvatningardagsins hefst klukkan 13 í Tjarnabíó, en nánari upplýsingar um daginn má sjá hér.

Í tilefni Hvatningardagsins, fjallar Atvinnulífið um málið í dag og á morgun.

„Ætlum við að gera þetta aftur?“

Aðeins fjórðungur tæknigeirans eru konur og Elísabet, sem er rekstrarverkfræðingur að mennt, þekkir það af eigin skinni, hvernig það er að starfa í karlægum geira. Skemmtilegt viðtal við Elísabetu má sjá hér að neðan.

Elísabet segir Hvatningardaginn á morgun þó ekki aðeins snúast aðeins um konur og kvára í tæknigeiranum. Heldur þann árangur sem íslenskt atvinnulíf getur náð.

„Það er margsannað að fyrirtæki með fjölbreytt teymi ná meiri árangri í rekstri. Það sama gildir um þróun á vörum og þjónustu; Fjölbreytt teymi hafa betri innsýn inn í þarfir breiðari hóps. Það segir sig sjálft, einsleit teymi geta ekki þróað árangursríkar lausnir fyrir fjölbreytt samfélag,“ segir Elísabet.

Og það er ljóst að Elísabet vill ekki að framtíðin misstígi sig á sama hátt og fortíðin.

Í gegnum tíðina hafa vörur verið þróaðar af einsleitari teymum. Fyrir vikið eru til dæmis bílbelti í bílum ekki eins örugg fyrir konur en þau eru fyrir karla. 

Ætlum við að gera þetta aftur? 

Eða ætlum við að byggja upp fjölbreytt teymi sem ná enn betri árangri í því að þróa tæknina áfram.“

Elísabet segir gervigreindina gott dæmi um hversu mikilvægt það er að hjá fyrirtækjum starfi fjölbreyttur hópur fólks.

„Gervigreindin er frábær. En hún er líka uppfull af fordómum gagnvart minnihlutahópum, einfaldlega vegna þess að gervigreind byggir á gögnum og lærðri hegðun. Fyrirtæki sem vilja nýta sér gervigreindina þurfa að vera meðvituð um þetta.“

Sem dæmi nefnir Elísabet.

„Klassískt dæmi er fyrirtæki sem notar gervigreind í ráðningarferli. Ef gögnin sem kerfið lærir af endurspegla fyrri skekkjur, gæti gervigreindin ósjálfrátt ýtt undir þá fordóma; til dæmis með því að gefa ákveðnum hópum lægri einkunnir eða sía þá út. Ef teymið sem vinnur að þróun kerfisins er einsleitt, eru minni líkur á að það átti sig á þessum skekkjum eða grípi til aðgerða til að tryggja sanngjarna niðurstöðu fyrir alla umsækjendur.“

Fyrir Elísabetu er staðan því kristaltær.

„Þau fyrirtæki sem upplifa jafnréttismálin ekki sem nægilega mikinn hvata til að byggja upp fjölbreytt teymi, geta einfaldlega horft á þann hvata, að með fjölbreyttum teymum séu þau líklegri til að ná betri árangri í rekstri og líklegri til að þróa vörur og þjónustur sem ná meiri árangri. Þetta staðfesta rannsóknir.“

Lífið og vinnustaðurinn

Yfirskrift Hvatningardags Vertonet er Leiðum til framtíðar. Og þar sem Elísabetu eru jafnréttismálin mjög hugleikin, segir hún miklu skipta að viðburður eins og þessi sé haldinn á Íslandi.

„Að á Íslandi sé frekar verið að ganga áfram eins og herferð UN Women hvetur til, frekar en að stíga aftur á bak.“

Að það sé nánast uppselt á Hvatningardaginn, segir Elísabet þýðingarmikla staðreynd.

„Mér finnst þetta ómetanlegt því þetta segir okkur mikið um það hversu tilbúið íslenskt atvinnulíf er að styðja við þessi málefni og gera betur. Að hér sé vilji til að halda vegferðinni áfram og auka á fjölbreytni innan tæknigeirans, óháð því hvað er að gerast víða annars staðar í heiminum.“

Enn og aftur, bendir Elísabet þó á að fjölgun kvenna og kvára í tæknigeiranum snúist einfaldlega um atvinnulífið sjálft.

Þar sem allt helst í hendur.

„Því að vinnustaðirnir okkar eru ekki aðeins vinnustaðir, heldur staðir sem hafa mikil áhrif. Við verjum það miklum tíma ævi okkar á vinnustaðnum að það þegar við vinnum í fjölbreyttum teymum hefur óhjákvæmilega smitandi áhrif út í samfélagið.“

Stjórnarhættir fyrirtækja skipta hins vegar sköpum til að tryggja fjölbreytnina.

Því stjórnandi hefur svo mikið vald þegar kemur að því að skapa teymi. 

Hver stjórnandi hefur áhrif á það hvernig hegðun viðgengst innan teyma eða hvers konar dýnamík þar ríkir. 

Og fyrir þau fyrirtæki sem vilja ná sem bestum árangri bendi ég aftur á það sem ég sagði áðan: 

Það þarf fjölbreytt teymi til að skapa vörur fyrir fjölbreytt samfélag.“


Tengdar fréttir

„Ég var pæja sem vildi ekki vera með ljótan gulan hatt á hausnum“

„Það er fyrirséð að um allan heim mun vanta fleira fólk í tæknigeirann í framtíðinni. Það er skortur á fólki nú þegar og fyrirséð að sá skortur er. Þannig að óháð öllu öðru, þá er það líka einfaldlega staðreynd að samfélögum vantar að fá fleiri konur til að velja tækni,“ segir Lena Dögg Dagbjartsdóttir, verkefnastjóri Vertonet.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×