Fótbolti

Alexandra fljót að skora fyrsta markið með hjálp Guð­nýjar

Sindri Sverrisson skrifar
Alexandra Jóhannsdóttir virðist á hárréttri braut á EM-ári.
Alexandra Jóhannsdóttir virðist á hárréttri braut á EM-ári. Getty/Alex Nicodim

Alexandra Jóhannsdóttir var ekki lengi að skora sitt fyrsta mark fyrir Kristianstad í sænsku úrvalsdeildinni í fótbolta, eftir komuna frá Ítalíu, og það með aðstoð liðsfélaga síns úr íslenska landsliðinu.

Alexandra skoraði með skalla eftir fyrirgjöf frá Guðnýju Árnadóttur, þegar Kristianstad vann Häcken 2-0 í annarri umferð deildarinnar í dag. Það var seinna mark Kristianstad og kom rétt fyrir hálfleik.

Alexandra og Guðný léku allan leikinn fyrir Kristianstad en liðið var án Kötlu Tryggvadóttur sem glímt hefur við meiðsli. Landsliðsmarkvörðurinn Fanney Inga Birkisdóttir, sem kom til Häcken frá Val í vetur, var á varamannabekknum líkt og í fyrstu umferð og hefur því ekkert getað gert í töpunum tveimur sem Häcken byrjar tímabilið á.

Kristianstad hafði tapað 2-1 gegn Djurgården í fyrstu umferð deildarinnar.

María Ólafsdóttir Gros lék allan leikin í þungu 5-0 tapi Linköping á heimavelli gegn Hammarby, þar sem Ellen Wangerheim skoraði þrennu og Nadia Nadim skoraði í sínum fyrsta leik eftir komuna frá AC Milan.

Sædís kom að sigurmarkinu

Sædís Rún Heiðarsdóttir átti stóran þátt í 1-0 útisigri Vålerenga gegn Röa í 2. umferð norsku úrvalsdeildarinnar. Það var eftir skot Sædísar á 24. mínútu, sem var varið, sem Olaug Tvedten skoraði eina mark leiksins.

Selma Sól Magnúsdóttir var ekki með Rosenborg vegna meiðsla, í 2-1 sigri gegn Bodö/Glimt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×