Lífið

Fimm tíma morgunrútínan sem allir eru að tala um

Bjarki Sigurðsson skrifar
Skjáskot úr morgunrútínumyndbandi Ashton Hall.
Skjáskot úr morgunrútínumyndbandi Ashton Hall.

Sérfræðingur í svefnrannsóknum segir ekki ráðlagt að fórna svefni til þess að vakna fyrr á morgnana. Áhrifavaldar virðast keppast við að vakna fyrr og sýna að þeir komi sem mestu í verk yfir daginn.

Í myndbandinu hér fyrir neðan má sjá hvernig morgnar áhrifavaldsins Ashton Hall eru, að minnsta kosti að hans eigin sögn. Morgunrútínan hefur vakið mikla athygli meðal netverja og finnst mörgum hún vera ansi ýkt en hún tekur hann rúma fimm klukkutíma. 

Hann vaknar klukkan fjögur og fyrir klukkan níu er hann búinn að hugleiða, lesa, dýfa andlitinu í kalt vatn, fara í ræktina og í sund. Svo endar hann herlegheitin með því að nudda bananahýði í andlitið á sér, sem á að hjálpa við að losna við hrukkur og mýkja húðina.

Fleiri áhrifavaldar hafa birt svipaðar rútínur, sem flestar innihalda að vakna eldsnemma. Til að mynda Kristján Einar Sigurbjörnsson, betur þekktur sem Kleini, sem vaknar klukkan þrjú að nóttu til svo hann geti nýtt tímann sinn betur.

Erna Sif Arnardóttir, sérfræðingur í svefnrannsóknum, segir sjálfsagt mál að hátta sinni rútínu þannig að þú vaknir klukkan þrjú eða fjögur. Hins vegar megi ekki fórna svefni til þess.

„Líkaminn okkar er þróaður á þann veg að við viljum vera vakandi og okkur líður best þegar það er sólarbirta og dagsbirta í umhverfinu. Auðvitað getur það verið erfitt á Íslandi en almennt er betra að vera í takti við þessar tímasetningar. En ef einhver fer alltaf að sofa klukkan sjö og vaknar klukkan þrjú og líður vel með það, þá er ekkert að því. Það er allt í lagi. En það er ekki betra heldur en að sofa frá ellefu til sjö,“ segir Erna. 

Erna Sif Arnardóttir er dósent við Háskólann í Reykjavík og sérfræðingur í svefnrannsóknum.Vísir

Hún telur það geta haft slæm áhrif þegar áhrifavaldar segja það skila árangri að vakna svo snemma.

„Ungt fólk sem er þá að upplifa: „Vá, ég á að vakna klukkan þrjú og þá á ég að fara í ræktina“. Við vitum að sumar af þessum líkamsræktum eru opnar á nóttunni og þá er eitthvað ungt fólk farið að byrja að draga sig úr rúminu klukkan þrjú. Þau eiga nú oft erfitt með að sofna snemma. Ungmenni eru oft meiri B-manneskjur eða kvöldmanneskjur. Sofna ekki fyrr en klukkan ellefu en vakna svo klukkan þrjú til að fara í ræktina. Það er alveg skelfilegt,“ segir Erna. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.