„Við vitum að Max er óánægður, en við þurfum tvo bíla framarlega. Ekki bara fyrir bílasmiðakeppnina, heldur líka til að hjálpa Max að vinna sinn fimmta heimsmeistaratitil. Þú getur keyrt og keppt af meiri kænsku þannig,“ sagði Marko í viðtali við De Telegraaf.
Marko fer einnig fyrir Racing Bulls, ungmennaliði Red Bull, sem Liam Lawson mun nú keppa aftur fyrir eftir aðeins hundrað daga í aðalliðinu. Yuki Tsunoda fer í hina áttina og keyrir Red Bull bíl í japanska kappakstrinum fyrstu helgina í apríl.
„Við þurftum að bregðast við áður en hann missti sjálfstraustið algjörlega. Við megum ekki gleyma því að ferillinn hans er ekki búinn. Hann er kominn aftur í Racing Bulls, lið með bíl sem getur vel skorað einhver stig, bíll sem er töluvert auðveldari í akstri, en aðallega, í liði þar sem hann verður ekki borinn saman við Max Verstappen“ skrifaði Marko í vikulegum pistli sínum á speedweek.com.
Liam Lawson tjáði sig á Instagram í gær, í fyrsta sinn opinberlega síðan breytingin var tilkynnt. Þar sagði hann draum sinn síðan í barnæsku hafa verið að keyra Red Bull bíl, eitthvað sem hann vann að alla ævi. Þetta hafi verið honum erfitt.
Næsti kappakstur í Formúlu 1 fer fram í Japan sunnudaginn 6. apríl og verður í beinni útsendingu á Vodafone Sport.