Erlent

24 látnir og 1.000 ára hof brunnið í fordæmalausum gróðureldum

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Gounsa-hofið, einnig kallað Unramsa, brann til kaldra kola í eldunum.
Gounsa-hofið, einnig kallað Unramsa, brann til kaldra kola í eldunum. AP/Yonhap/Baek Seung-reol/Kim Do-hoon

Að minnsta kosti 24 hafa látist í skógareldum í Suður-Kóreu, sem stjórnvöld segja fordæmalausa. Flestir voru á sjötugs- og áttræðisaldri. Þá eru 26 særðir, þar af tólf lífshættulega.

Yfir 23 þúsund manns hafa neyðst til að flýja eldana í suðausturhluta landsins. 

Þá brann Gounsa-musterið í Uiseong borg, sem er talið hafa verið reist árið 618. Munkar á staðnum, sem einnig er kallað Unramsa-hofið, eru sagðir hafa náð að bjarga nokkrum trúarlegum minjum og flytja á öruggan stað.

Han Duck-soo, starfandi forseti, segir neyðarástand ríkja og að eldarnir séu að „endurskrifa metabækurnar“ um elda í landinu.

Gróðureldarnir hófust í Sancheong-sýslu á föstudag og náðu síðar inn í Uiseong-sýslu. Þá sækja þeir nú í átt að fjórum öðrum nálægum sýslum. Reuters hefur eftir sérfræðingi í skógarhamförum að eldurinn í Uiseong hafi breiðst út á „óhugsandi“ hraða.

Þúsundir slökkviliðsmanna og um 5.000 hermenn hafa verið kallaðir út til að berjast við eldana og þá hefur einnig verið notast við þyrlur frá bandaríska hernum. Þyrla sem var við björgunarstörf í dag, hrapaði í Uiseong.

Björgunarmenn virða fyrir sér bjöllu sem hékk í bjöllusal Gounsa-hofsins.AP/Yonhap/Kim Do-hoon

AFP hefur eftir eplabóndanum Cho Jae-oak að hann og eiginkona hans hafi freistað þess að „vökva“ heimili sitt til að forða því frá eldunum. Þau neyddust hins vegar að lokum til að flýja.

Veður hefur verið þurrt í Suður-Kóreu það sem af er ári og 244 gróðureldar kviknað, 2,4 sinnum fleiri en á sama tíma í fyrra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×