Erlent

Vilja að­stoð við út­flutning og losna við þvinganir áður en þeir hætta á­rásum

Samúel Karl Ólason skrifar
Vólódímír Selenskí, forseti Úkraínu, segir það hafa verið rétta ákvörðun að samþykkja tillögu Bandaríkjamanna og að enginn geti nú sakað Úkraínumenn um að vilja ekki koma á friði.
Vólódímír Selenskí, forseti Úkraínu, segir það hafa verið rétta ákvörðun að samþykkja tillögu Bandaríkjamanna og að enginn geti nú sakað Úkraínumenn um að vilja ekki koma á friði. EPA

Ríkisstjórn Donalds Trump, forseta Bandaríkjanna, hefur gert samkomulag við ráðamenn í Rússlandi og Úkraínu um vopnahlé á Svartahafi. Einnig á samkomulagið að fela í sér að árásum á orkuinnviði í Úkraínu og í Rússlandi verði hætt og í staðinn ætla Bandaríkjamenn að hjálpa Rússum við að auka útflutning.

Samkomulag þetta náðist í viðræðum í Sádi-Arabíu í gær en það var ekki fyrr en í dag sem opinberað var um hvað samkomulagið snýst um.

Samkvæmt yfirlýsingu frá Hvíta húsinu felur samkomulagið milli Bandaríkjamanna og Rússa í sér að frjálsar siglingar verði tryggðar um Svartahafið og að skip í eigu almennra borgara verði ekki notuð í hernaðarskyni. Rússar vilja fá að skoða skip sem siglt er til Úkraínu.

Í staðinn segjast Bandaríkjamenn ætla að hjálpa Rússum við það að fá aðgang að mörkuðum heimsins fyrir landbúnaðarvörur og áburð á nýjan leik, lækka tryggingakostnað Rússa við skipaflutninga og auðvelda aðgengi þeirra að höfnum heimsins og greiðslukerfum.

Hvíta húsið og Kreml virðast þó ósammála um hvað samkomulagið felur í sér og segja Rússar að það muni ekki taka gildi fyrr en búið sé að fella niður þó nokkrar refsiaðgerðir gegn Rússlandi.

Í yfirlýsingu Kreml segir að Rússar og Bandaríkjamenn hafi samþykkt að vinna að því að stöðva árásir að orkuinnviði í þrjátíu daga. Þar segir þó að þegar komi að samkomulagi um frið á Svartahafi muni samkomulag ekki taka gildi fyrr en búið sé að fella niður refsiaðgerðir sem komið hafa niður á útflutningi Rússa á landbúnaðarafurðum, fiskafurðum og áburði og eru nefndar fleiri aðgerðir sem Bandaríkjamenn nefna ekki, eins og fram kemur í viðtali Wall Street Journal við sérfræðing.

Útflutningur Rússa á landbúnaðarvörum hefur ekki verið stöðvaður beint með refsiaðgerðum en Rússar segja aðrar aðgerðir ríkja Evrópu varðandi aðgang að höfnum í heimsálfunni hafa komið verulega niður á honum.

Blaðamaður Economist hefur eftir heimildarmanni sínum í Kænugarði að Pútín hafi spilað með Bandaríkjamenn. Reyndir rússneskir samningamenn hafi nýtt sér örvæntingu bandarískra erindreka í að ná fram einhverskonar táknrænum sigri.

Vilja aftur aðgang að SWIFT

Einnig verði að fella niður refsiaðgerðir varðandi tryggingar flutningaskipa og fella niður aðgerðir gegn Rosselkhozbankanum í Rússlandi og opna á aðgang annarra fjármálastofnana að SWIFT-greiðslukerfinu, sem notað er til að miðla greiðslum milli alþjóðlegra banka. Flestum rússneskum bönkum var meinaður aðgangur að kerfinu eftir innrásina í febrúar 2022.

Leiðtogar Evrópusambandsins munu væntanlega þurfa að taka ákvörðun um það að fella niður refsiaðgerðir gegn rússneskum bönkum og veita þeim aftur aðgang að Swift.

Úkraínumenn hafa þegar sagst ætla að hætta árásum sínum á orkuinnviði í Rússlandi og hernaðarskotmörk á og við Svarthaf.

Erindrekar Bandaríkjanna hafa áður reynt að fá Vladimír Pútín, forseta Rússlands, til að samþykkja almennt þrjátíu daga vopnahlé í Úkraínu en það hefur hann ekki viljað gera.

Ekkert um árásir Rússa á úkraínskar hafnir

Úkraínumönnum hefur á undanförnum árum tekist að sökkva þó nokkrum rússneskum herskipum á Svartahafi en Rússar hafa ekki getað sent liðsauka þangað þar sem Tyrkir hafa lokað Bosforsundi fyrir herskipum.

Sumarið 2023 sögðu Rússar sig frá samkomulagi sem átti að tryggja kornúflutning frá Úkraínu.

Sjá einnig: Brotthvarf Rússa frá kornsamkomulagi fordæmt um allan heim

Síðan þá hafa Rússar flutt öll sín herskip á Svartahafi í skjól frá úkraínskum drónum og eldflaugum og umfang útflutnings Úkraínumanna hefur nálgast sömu stöðu og hann var í fyrir innrásina, þrátt fyrir dróna- og eldflaugaárásir Rússa á höfnina í Odessa og skip sem siglt er þar um.

Ekkert stendur í samkomulaginu um að tryggja útflutning Úkraínumanna eða það að Rússar hætti árásum á úkraínska hafnir en Úkraínumenn eiga engan flota til að tala um.

Blaðamaður Wall Street Journal segir að við fyrstu sýn virðist sem Rússar eigi að fá að losna við refsiaðgerðir og fá að sigla frjálsir sinna ferða um Svartahaf í skiptum fyrir lítið sem ekkert fyrir Úkraínumenn.

Vólódímír Selenskí, forseti Úkraínu, sagði við blaðamenn í dag að ef Rússar brjóti gegn samkomulaginu muni hann strax biðja Trump um hertar refsiaðgerðir gegn Rússlandi og frekari hernaðaraðstoð.

Selenskí sagði of snemmt að segja til um hvort samkomulagið myndi bera árangur en það hefði verið rétt að samþykkja það.

„Enginn getur sakað Úkraínu um að vilja ekki koma á friði eftir þetta.“

Þá hefur Reuters eftir Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands, að þar á bæ sé talið að Úkraínumönnum sé ekki treystandi og að Bandaríkjamenn muni þurfa að tryggja að þeir fylgi samkomulaginu eftir.


Tengdar fréttir

Misstu útlimi í árásum en vilja halda áfram að hjálpa

Fyrir flesta er lítið mál að kveikja ljós, opna hurð og skrúfa frá krana án umhugsunar. Í Týtanóví endurhæfingarmiðstöðinni í höfuðborg Úkraínu er það aftur á móti meðal þess sem hópur særðra hermanna þarf að æfa upp á nýtt. Særðir Úkraínumenn sem vinna að því að ná bata segjast þrá fátt heitar en að stríðinu ljúki og vilja halda áfram að berjast fyrir landið sitt svo lengi sem þess sé þörf. Það sé sárt til þess að hugsa ef samið yrði um falskan frið á forsendum Rússa.

Bættu blaðamanni óvart í Signal-hóp um árásir á Húta

Svo virðist sem Mike Waltz, þjóðaröryggisráðgjafi Donalds Trump, forseta Bandaríkjanna, hafi fyrir mistök bætt blaðamanni inn í spjallhóp þar sem hann, JD Vance varaforseti, Pete Hegseth varnarmálaráðherra og fleiri töluðu um hvort Bandaríkin ættu að hefja umfangsmiklar árásir á Húta í Jemen og hvernig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×