Þetta kemur fram í tilkynningu sem Ciara birtir á Instagram. Þar segist hún hafa sótt um skilnað í Bretlandi svo hægt yrði að halda skilnaðinum leyndum. Það virðist ekki lengur vera í boði og því finnist henni mikilvægt að segja frá sinni hlið og standa með sjálfri sér. Måns hefur áður rætt sambandserfiðleika þeirra opinberlega við Aftonbladet en þau höfðu verið saman í tíu ár og eiga saman tvö börn.
Börnin í forgangi
„Börnin mín eru og munu alltaf verða í forgangi hjá mér og ég mun gera allt sem ég get til þess að vernda þau og vera sú móðir sem þau eiga skilið,“ skrifar Ciara á Instagram.
„Ég get ekki lengur horft upp á fjölskyldu mína lifa í fjandsamlegu umhverfi þar sem þau verða vitni að fíkniefnamisnotkun, andlegu og líkamlegu ofbeldi og endalausu framhjáhaldi,“ skrifar hún.
Hún segist hvetja alla sem séu í sömu aðstæðum til þess að leita sér aðstoðar og stuðnings þannig að þau geti fundið hjá sér styrk til þess að ná tökum aftur á þeirra lífi. Allir eigi skilið hamingju og frelsi.
„Ég óska Måns alls hins besta í því sem hann tekur sér fyrir hendur í framtíðinni og ég vona að hann leiti sér þeirrar aðstoðar sem hann þarf svo mikið á að halda. Á meðan þessum kafla lýkur óska ég honum einskis nema betri framtíðar.“
Måns hefur ekki átt sjö dagana sæla að undanförnu. Eftir að hafa sigrað Eurovision 2015 varð hann að sætta sig við annað sætið í Melodifestivalen í Svíþjóð á dögunum. Hann brást illa við ósigrinum og sagðist sérstaklega hissa á atkvæðum alþjóðlegra dómnefnda. Hann hélt svo uppteknum hætti dagana á eftir og sendi gagnrýnendum sínum pillu á samfélagsmiðlum.