Erlent

Segja sig frá jarðsprengjusáttmála vegna Rússagrýlunnar

Samúel Karl Ólason skrifar
Jarðsprengjuir sem hannaðar eru gegn fótgangandi mönnum hafa mikið verið notaðar í Úkraínu.
Jarðsprengjuir sem hannaðar eru gegn fótgangandi mönnum hafa mikið verið notaðar í Úkraínu. Getty/Scott Peterson

Yfirvöld í Eistlandi, Lettlandi, Litháen og Póllandi hafa lagt til að ríkin dragi sig frá Ottawa-sáttmálanum, sem bannar notkun jarðsprengja sem hannaðar eru gegn fótgönguliði. Líklegt er að þessari tillögu verði framfylgt en varnarmálaráðherra ríkjanna segja öryggisástandið í Austur-Evrópu vera gerbreytt.

Ottawa-sáttmálinn var gerður árið 1997 og tók gildi 1. mars 1999. Samkvæmt honum mega ríki sem skrifa undir ekki framleiða jarðsprengjur sem hannaðar eru til gegn fótgönguliði og áttu að eyða öllum birgðum sínum af slíkum vopnum innan fjögurra ára.

Sáttmálinn bannar ekki notkun jarðsprengja sem hannaðar eru til að granda bryn- og skriðdrekum. Fjölmargir óbreyttir borgarar deyja á ári hverju vegna gamalla jarðsprengja og annars konar sprengja á gömlum átakasvæðum.

Eins og staðan er núna eru 164 ríki aðilar að sáttmálanum. Bandaríkin, Rússland og Kína eru meðal þeirra ríkja sem hafa ekki skrifað undir hann.

Skýr skilaboð

Í sameiginlegri yfirlýsingu sem varnarmálaráðherrar ríkjanna sendu út í morgun segir að frá því Ottawa-sáttmálinn var samþykktur hafi öryggisástandið í Austur-Evrópu breyst til muna. Hernaðarógn gegn ríkjum sem deila landamærum með Rússlandi og Belarús sé mun meiri en hún var áður.

Þess vegna hafi þessi ákvörðun verið tekin.

Stutt er síðan Donald Tusk, forsætisráðherra Póllands, sagði þessa ákvörðun til skoðunar þar á bæ. Hann sagði einnig til skoðunar að segja Pólland frá sáttmála gegn notkun klasasprengja.

Sjá einnig: Ætla að senda alla pólska menn í herþjálfun

Með þessu segja ráðherrarnir að hægt sé að bæta varnir ríkjanna og auka fjölbreytileika varna ríkjanna og Atlantshafsbandalagins. Verið sé að senda skýr skilaboð um að íbúar þessara ríkja séu tilbúin til að verja landsvæði þeirra og frelsi.

Þar segir einnig að þrátt fyrir þessa ákvörðun standi séu forsvarsmenn ríkjanna staðráðnir í að standa vörð um mannréttindi og alþjóðasamþykktir eins þær sem snúa að því að verja óbreytta borgara í átökum.

Ráðamenn í Finnlandi hafa einnig sagt að þar sé verið að skoða að segja skilið við sáttmálann, sem þeir skrifuðu undir árið 2012, en ákvörðun um það hefur ekki verið tekin enn.

Ríkisútvarp Finnlands hefur eftir formanni varnamálanefndar finnska þingsins að ákvörðun Eystrasaltsríkjanna og Póllands sé góð. Innrás Rússa í Úkraínu hafi sýnt glögglega að einföld vopn eins og jarðsprengjur geti verið mjög skilvirk.

Sérstök nefnd sem hefur verið að skoða það hvort Finnar eigi að segja sig frá Ottawa-sáttmálanum á að skila skýrslu á næstunni og er búist við því að ákvörðun um framhaldið verði tekin í vor.

Leiðtogar Evrópu hafa samþykkt að fara í umfangsmikla hernaðaruppbyggingu og umbætur á hergagnaframleiðslu í heimsálfunni á næstu árum.


Tengdar fréttir

Ætla að breyta stjórnarskrá til að auka fjárútlát til varnarmála

Friedrich Merz, væntanlegur kanslari Þýskalands, hefur komist að samkomulagi við Græningja um áætlun vegna gífurlegra fjárveitinga til varnarmála og innviða á næstu árum. Merz, sem leiðir Kristilega demókrata, hafði áður komist að samkomulagi við Sósíaldemókrata.

Ætla að sigra í vopnakapphlaupi við Rússa

Leiðtogar ríkja Evrópusambandsins ætla í umfangsmikla hernaðaruppbyggingu á næstu árum. Stíft er fundað um varnarmál í Brussel þessa dagana en í dag fer fram leiðtogafundur þar sem þeir ræða auknar fjárveitingar til varnarmála og uppbyggingu hergagnaframleiðslu í Evrópu.

Eykur fjárútlát í herinn til muna vegna „hættulegra nýrra tíma“

Keir Starmer, forsætisráðherra Bretlands, boðaði í dag stærstu aukningu í fjárútlátum til varnarmála frá tímum kalda stríðsins. Bretar ætla sér að verja 2,5 prósentum af landsframleiðslu í varnarmál fyrir árið 2027 en það er fyrr en áður stóð til og á hlutfallið að fara í þrjú prósent eftir það.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×