Erlent

Kalla eftir að­gerðum gegn síðu sem sýnir morð, sjálfs­víg og slys

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Áhyggjur eru uppi af því að neysla efnis á borð við það sem finna má á vefsíðunni hafi skaðleg áhrif á börn og ungmenni.
Áhyggjur eru uppi af því að neysla efnis á borð við það sem finna má á vefsíðunni hafi skaðleg áhrif á börn og ungmenni. Getty

Fjölskyldur á Bretlandseyjum kalla eftir því að yfirvöld beiti sér fyrir lokun vefsíðu þar sem finna má myndskeið af því þegar ástvinir þeirra voru myrtir eða létust af slysförum.

BBC fjallar um málið en nefnir ekki vefsíðuna, þar sem finna má þúsundir mynda og myndskeiða. Notendur síðunnar eru sagðir telja þrjár milljónir. Þeirra á meðal eru einstaklingar sem hafa sjálfir verið dæmdir fyrir morð.

Breska stofnunin Ofcom, sem hefur eftirlit með fjölmiðlum og fjarskiptum, hefur fengið heimild til að grípa til aðgerða þegar stjórnendur vefsíða fjarlægja ekki ólöglegt efni. Ef stjórnendur vefsíða geta ekki sýnt fram á að þeir séu með úrræði til staðar til að fjarlægja ólöglegt efni, getur Ofcom annað hvort sektað þá eða leitað til dómstóla til að fara fram á að vefsíðunni sé lokað.

Umrædd vefsíða kann þó að vera handan valdsviðs Ofcom, þar sem hún er hýst í Bandaríkjunum og eigendur hennar og stjórnendur eru óþekktir. Þá er efni síðunnar ekki allt ólöglegt, þótt það sé ósmekklegt.

Efni á síðunni er flokkað eftir innihaldi en þar má meðal annars finna myndskeið af aftökum, morðum, sjálfsvígum og slysum. 

Í umfjöllun BBC eru meðal annars nefnd til sögunnar aftaka David Haines af höndum Íslamska ríkisins í Sýrlandi árið 2014, dauðsfall fallhlífastökkvarans Nathan Odinson, sem lést þegar fallhlífin hans opnaðist ekki á Taílandi í fyrra, og árásin á Ian Price, sem lést af sárum sínum eftir að tveir  XL Bully hundar réðust á hann.

Sérfræðingar hafa lýst áhyggjum af því áhrifum efnis síðunnar á börn og ungmenni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×