Skoðun

Kol­brún Páls­dóttir – Öflugur leið­togi fyrir fram­tíð Há­skóla Ís­lands

Kristín Jónsdóttir og Þórdís Jóna Sigurðardóttir skrifa

Í margvíslegum samvinnuverkefnum á síðustu árum hefur Kolbrún sýnt sveigjanleika og seiglu og ekki hikað við að láta hendur standa fram úr ermum. Við styðjum framboð hennar til rektors Háskóla Íslands heilshugar og hvetjum öll þau sem atkvæðisrétt hafa til að kynna sér stefnumál hennar og árangur.

Kolbrún Pálsdóttir hefur náð að tengja Menntavísindasvið Háskóla Íslands við aðrar menntastofnanir samfélagsins á nýjan hátt. Hún hefur vilja og metnað til að brjóta niður múra milli stofnana, skapa vettvang fyrir samtal ólíkra aðila og tryggja að Háskólinn starfi í tengslum við skóla á öllum stigum, fagfélög, stjórnvöld og aðra lykilaðila.

Kolbrún hefur verið óþreytandi í því að styðja við þróun kennslu og rannsókna og leitað leiða til að styrkja samstarf og nýja sprota í menntakerfinu. Hún hefur ásamt samstarfsfólki af Menntavísindasviði tekið virkan þátt í mótun stefnu og uppbyggingu verkefna á vegum Miðstöðvar menntunar og skólaþjónustu. Eitt dæmi um mikilvægt samstarfsverkefni er MEMM – menntun, mótttaka og miðlun – þróunarverkefni sem mennta- og barnamálamálaráðuneytið leiðir og miðar að því að skapa samræmda stefnu fyrir móttöku og menntun barna með fjölbreyttan bakgrunn í íslenskum skólum. Annað dæmi um nýjan sprota er fagháskólanám í leikskólafræði á landsvísu þar sem Menntavísindasvið HÍ og Kennaradeild Háskólans á Akureyri byggja upp nýja námsleið saman sem mætir þörfum sveitafélaga og leikskóla um land allt. Það er ekki sjálfgefið að tryggja stuðning og fjármagn til nýrra verkefna, en Kolbrún hefur náð því með skýrri sýn, öflugri samvinnu og sannfæringarkrafti.

Kolbrún hefur það sem þarf til að leiða Háskólann áfram á vegferð uppbyggingar síðustu ára. Yfirgripsmikil reynsla hennar af stjórnun og þekking á stjórnkerfinu, framsýni, seigla og ríkuleg tengsl við fjölmarga aðila munu nýtast vel í embætti rektors. Við hvetjum ykkur öll sem hafið atkvæðisrétt í rektorskjörinu sem fram fer á Uglu 18. og 19. mars til að kjósa Kolbrúnu sem næsta rektor Háskóla Íslands.

Kristín Jónsdóttir er kennslukona og dósent við Deild kennslu og menntunarfræða HÍ

Þórdís Jóna Sigurðardóttir er forstjóri Miðstöðvar menntunar og skólaþjónustu




Skoðun

Sjá meira


×