Samkvæmt útboðsauglýsingu verður 58 metra löng brú gerð á Djúpafjörð við Grónes og önnur 130 metra löng brú á Gufufjörð. Innifalið í verkinu er rif á núverandi 119 metra bráðabirgðabrú á Gufufirði ásamt efnisflutningum úr núverandi vinnuplönum og gerð grjótvarnar.
Útboðið er auglýst á Evrópska efnahagssvæðinu. Tilboðum þarf að skila í síðasta lagi þriðjudaginn 29. apríl næstkomandi. Verkinu skal að fullu lokið 30. september 2026.

Þetta er næstsíðasti áfangi einhverrar umdeildustu vegagerðar á Íslandi, sem jafnan er kennd við Teigsskóg. Áður var búið að brúa Þorskafjörð, sem þýddi níu kílómeta styttingu, og leggja þjóðveginn um Teigsskóg. Einnig er lokið gerð tengivega að sveitabæjum í Gufudal og Djúpadal, sem tímabundið eru hluti Vestfjarðavegar.
Þá er langt komin gerð 3,6 kílómetra langra vegfyllinga yfir Gufufjörð og Djúpafjörð sem og gerð bráðabirgðabrúar vegna smíði varanlegu brúnna. Borgarverk annast þann verkhluta.
Lokaáfanginn er hins vegar eftir. Það er smíði 250 metra langrar stálbogabrúar yfir Djúpafjörð, sem verður í stíl við brúna yfir Mjóafjörð í Djúpi og nýju Eldvatnsbrúna í Skaftárhreppi. Brúin verður smíðuð á verkstæði en sett saman á staðnum.

Að sögn Sigurþórs Guðmundssonar, verkefnisstjóra Gufudalssveitar hjá Vegagerðinni, er stefnt á að bjóða það verk út fyrir lok þessa árs. Hann segir enn óvíst um verklok.
Með þverun Gufufjarðar og Djúpafjarðar fæst tólf kílómetra stytting. Með framkvæmdunum í heild styttist Vestfjarðavegur um 22 kílómetra. Jafnframt færist leiðin af tveimur fjallvegum, Hjallahálsi og Ódrjúgshálsi, og verður eingöngu láglendisvegur um Gufudalssveit.

Með styttingunni verður vesturleiðin svokallaða langstysta leiðin milli Ísafjarðar og Reykjavíkur, um 402 kílómetra löng, 53 kílómetrum styttri en leiðin um Djúp, sem er 455 kílómetra löng. Almennt er búist við að með endurbótunum í Gufudalssveit og á Dynjandisheiði, ásamt Dýrafjarðargöngum, verði grundvallarbreyting á samgöngumynstri Vestfirðinga og að aðalleiðin milli höfuðstaðar Vestfjarða og höfuðborgarinnar færist úr Djúpinu yfir á vesturleiðina.