Verðlaunahátíðin fór fram með pompi og prakt í 97. skiptið í Dolby kvikmyndahúsinu í Los Angeles venju samkvæmt. Conan O' Brien var kynnir í þetta skiptið. Anora sem er um bandaríska kynlífsverkakonu sem giftist syni rússnesks ólígarks fékk verðlaun í flokki bestu myndar, bestu klippingar, bestu leikstjórn, besta frumsamið handrit auk þess sem aðalleikkonan Mikey Madison bar sigur úr býtum sem besta leikkonan.
Adrien Brody hlaut verðlaun í flokki besta leikarans fyrir hlutverk sitt í kvikmyndinni The Brutalist og skaut þar leikaranum Timothée Chalamet ref fyrir rass sem fór með hlutverk Bob Dylan í A Complete Unknown. Þá var kvikmyndin Flow fyrsta lettneska myndin til þess að vinna til verðlauna í flokki teiknimynda. Zoe Saldana hlaut svo verðlaun sem besta aukaleikkonan fyrir hlutverk sitt í kvikmyndinni Emilia Pérez.
Í opnunarræðu sinni gerði Conan O' Brien meðal annars stólpagrín að sjálfum sér og auðvitað Akademíunni.
Myndin Emilia Pérez, sem fjallar um mexíkóska trans konu sem jafnframt er eiturlyfjabarón, hafði einmitt hlotið flestar tilnefningar fyrir kvöldið í kvöld eða alls þrettán talsins. Myndin hlaut hinsvegar einungis tvenn Óskarsverðlaun. Wicked hlaut tvenn, The Brutalist þrenn, A Complete Unknown engin og Conclave ein verðlaun.
Í þakkarræðu sinni vék leikstjóri Anora Sean Baker sérstaklega að kynlífsverkafólki og þakkaði því fyrir að deila sögum sínum með honum. Hann sagðist tileinka þeim hópi verðlaun sín.
Mynd hans fjallar eins og áður segir um Anoru kynlífsverkakonu frá Brooklyn sem kemst í hann krappan þegar hún giftist syni rússnesks ólígarks. Foreldrar hans taka giftinguna ekki í sátt og gera sitt besta til þess að ógilda hana. Baker sagði verðlaunin sérlegan sigur fyrir sjálfstæða kvikmyndagerð og hvatti kvikmyndagerðarmenn til þess að gera myndir fyrir kvikmyndahús.
Bandaríska leikkonan Mikey Madison sem fór með hlutverk Anoru tileinkaði einnig kynlífsverkafólki sín verðlaun í verðlaunaræðu sinni í nótt þegar hún var valin besta leikkonan í aðalhlutverki. Var Demi Moore af mörgum fyrir kvöldið talin líklegust til að hreppa þessi verðlaun en allt kom fyrir ekki.
Mikey sagði að það væri afar súrrealískt að standa á sviðinu og veita verðlaununum viðtöku. Hún viðurkenndi að vera afar stressuð. Hún sagði að fundir sínir með kynlífsverkafólki í aðdraganda myndarinnar hefðu verið það sem hefði haft mestu áhrif á hana við gerð myndarinnar.
Stiklu úr kvikmyndinni Anora má horfa á hér fyrir neðan.
Adrien Brody skráði sig á spjöld sögunnar þegar hann vann til verðlauna sem besti leikarinn í nótt. Hann er sá fyrsti sem tilnefndur hefur verið tvisvar í þessum flokki og unnið til verðlaunanna í bæði skiptin. Síðast hlaut hann Óskarinn 29 ára gamall árið 2003 fyrir hlutverk sitt í The Pianist, þar sem hann fór með hlutverk pólsks píanósnillings sem upplifir helförina á eigin skinni.
Í þetta skiptið fer Brody aftur með hlutverk eftirlifanda úr helförinni, ungverska innflytjandans László Tóth sem reynir að koma undir sig fótunum á ný sem arkitekt í Bandaríkjunum. Brody grínaðist einmitt með það í ræðu sinni í nótt að þetta væri ekki hans fyrsta ródeó á þessum vettvangi.
Stiklu úr kvikmyndinni The Brutalist má horfa á hér fyrir neðan.
„Ég tel mig svo gríðarlega heppinn,“ sagði Brody meðal annars í ræðu sinni í nótt. „Leiklist er rosalega brothættur starfsvettvangur og á einstaka stundum er það bara eitt sem ég hef lært og það er að líta á samhengi hlutanna,“ sagði leikarinn.
Hann sagðist vera þarna til þess að minna á hryllinginn sem fylgir stríði, gyðingahatri og rasisma. Brody sagðist óska eftir hamingjusamari heimi þar sem hatur yrði ekki látið óáreitt.
Zoe Saldana hreppti verðlaun í flokki aukaleikkonu fyrir hlutverk sitt í myndinni Emilia Pérez. Hún hélt tilfinningaþrungna ræðu þar sem hún kallaði á móður sína í upphafi ræðu með tár í augum og sagði móður sína vera með sér í salnum. Hún rifjaði meðal annars upp að amma hennar hefði flutt til Bandaríkjanna árið 1961 frá Dóminíska lýðveldinu.
„Ég er stolt barn foreldra sem eru innflytjendur. Ég er fyrsti Bandaríkjamaðurinn af dóminískum uppruna til að taka við þessum verðlaunum og ég veit að ég verð ekki sú síðasta,“ sagði leikkonan meðal annars.
Í Emilia Pérez fer Saldana með hlutverk lögfræðings sem aðstoðar aðalpersónuna, eiturlyfjabarón frá Mexíkó og trans konu við að undirgangast kynstaðfestingaraðgerð. Saldana hefur áður lýst því yfir að myndin eigi stað í hjarta hennar, ekki síst fyrir þær sakir að hún fær að tala móðurmál sitt spænsku í myndinni.
Myndin var fyrir nóttina talin líklegust til að hreppa flest verðlaun en hlaut að lokum einungis tvenn. Myndin fékk einnig verðlaun fyrir besta frumsamda lagið í laginu El Mal.
Stiklu úr myndinni Emilia Pérez má horfa á hér fyrir neðan.
Kieran Culkin hlaut sinn fyrsta Óskar í nótt sem besti aukaleikarinn í kvikmyndinni A Real Pain sem hann lék í ásamt Jesse Eisenberg sem jafnframt skrifaði handrit myndarinnar, leikstýrði henni og fór með aðalhlutverkið.
Culkin tók við styttunni úr höndum Robert Downey Jr. og sagði það mikinn heiður að taka við þeim úr hans höndum. Þá blótaði hann óvart í upphafi ræðu þar sem hann hrósaði sérstaklega meðleikara sínum úr Succession Jeremy Strong sem tilnefndur var með honum fyrir hlutverk sitt í The Apprentice.
Þá grínaðist hann meðal annars með það að eiginkona hans hefði heitið honum því að eignast með honum fjórða barnið ef hann myndi vinna Óskarinn. Hann vék orðum sínum svo sérstaklega að Eisenberg og þakkaði traustið.
„Takk fyrir þessa mynd. Þú ert snillingur, ég mun aldrei segja það beint við þig, ég mun aldrei segja það aftur svo taktu þetta allt inn.“
Í kvikmyndinni A Real Pain er tveimur bandarískum frændum af gyðingaættum fylgt eftir í ferðalagi sínu til Póllands. Culkin og Eisenberg leika frændurna sem fara til landsins í minningu ömmu sinnar þar sem þeir heimsækja meðal annars vettvang helfararinnar.
Culkin fer með hlutverk Benji sem er gjarnan óútreiknanlegur og með hnyttinn húmor eins og hentar leikaranum vel. Eisenberg hefur hrósað meðleikara sínum í hástert og segir Culkin stórkostlegan leikara.
Stiklu úr kvikmyndinni A Real Pain má horfa á hér fyrir neðan.
Breska blaðið The Guardian tók saman lykilaugnablik á verðlaunahátíðinni í nótt.
Listi yfir alla verðlaunahafa
Besta kvikmynd
Anora
The Brutalist
A Complete Unknown
Conclave
Dune: Part Two
Emilia Pérez
I’m Still Here
Nickel Boys
The Substance
Wicked
Besti leikari í aðalhlutverki
Adrien Brody, The Brutalist
Timothée Chalamet, A Complete Unknown
Colman Domingo, Sing Sing
Ralph Fiennes, Conclave
Sebastian Stan, The Apprentice
Besta leikkona í aðalhlutverki
Cynthia Erivo, Wicked
Karla Sofía Gascón, Emilia Pérez
Mikey Madison, Anora
Demi Moore, The Substance
Fernanda Torres, I’m Still Here
Besti leikari í aukahlutverki
Yura Borisov, Anora
Kieran Culkin, A Real Pain
Edward Norton, A Complete Unknown
Guy Pearce, The Brutalist
Jeremy Strong, The Apprentice
Besta leikkona í aukahlutverki
Monica Barbaro, A Complete Unknown
Ariana Grande, Wicked
Felicity Jones, The Brutalist
Isabella Rossellini, Conclave
Zoe Saldaña, Emilia Pérez
Besti leikstjóri
Sean Baker, Anora
Brady Corbet, The Brutalist
James Mangold, A Complete Unknown
Jacques Audiard, Emilia Pérez
Coralie Fargeat, The Substance
Besta teiknaða mynd
Flow
Inside Out 2
Memoir of a Snail
Wallace & Gromit: Vengeance Most Fowl
The Wild Robot
Besta handrit byggt á áður útgefnu efni
A Complete Unknown
Conclave
Emilia Pérez
Nickel Boys
Sing Sing
Besta frumsamda handrit
Anora
The Brutalist
A Real Pain
September 5
The Substance
Besta kvikmyndatakan
The Brutalist-
Dune: Part Two
Emilia Pérez
Maria
Nosferatu
Besta búningahönnunin
A Complete Unknown
Conclave
Gladiator II
Nosferatu
Wicked
Besta heimildarmyndin
Black Box Diaries
No Other Land
Porcelain War
Soundtrack to a Coup d’Etat
Sugarcane
Besta heimildarstuttmyndin
Death By Numbers
I Am Ready, Warden
Incident
Instruments of a Beating Heart
The Only Girl in the Orchestra
Besta klipping
Anora
The Brutalist
Conclave
Emilia Pérez
Wicked
Besta erlenda kvikmynd
I’m Still Here
The Girl With the Needle
Emilia Pérez
The Seed of a Sacred Fig
Flow
Besta hár og förðun
A Different Man
Emilia Pérez
Nosferatu
The Substance
Wicked
Besta frumsamda tónlist
The Brutalist
Conclave
Emilia Pérez
Wicked
The Wild Robot
Besta frumsamda lag
El Mal, Emilia Pérez
The Journey, The Six Triple Eight
Like a Bird, Sing Sing
Mi Camino, Emilia Pérez
Never Too Late, Elton John: Never Too Late
Besta leikmynd
The Brutalist
Conclave
Dune: Part Two
Nosferatu
Wicked
Besta teiknaða stuttmynd
Beautiful Men
In the Shadow of the Cypress
Magic Candies
Wander to Wonder
Yuck!
Besta leikna stuttmynd
A Lien
Anuja
I’m Not a Robot
The Last Ranger
The Man Who Could Not Remain Silent
Besta hljóð
A Complete Unknown
Dune: Part Two
Emilia Pérez
Wicked
The Wild Robot
Bestu tæknibrellur
Alien: Romulus
Better Man
Dune: Part Two
Kingdom of the Planet of the Apes
Wicked